146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Það er alveg rétt og hv. þingmaður þekkir það vel, verandi fyrrverandi umhverfisráðherra, að landupplýsingar og slík gögn eru í hinum ýmsu stofnunum sem heyra undir umhverfisráðuneytið. Að sjálfsögðu vildi maður að þau gögn öll gætu unnið sem best saman og að mismunandi stofnanir og einstaklingar úti í bæ eða fyrirtæki sem nýta þau gögn þyrftu ekki að vera að tví- og þrívinna hluti sem þegar er búið að gera annars staðar. Það er alveg ljóst að það þarf að fara dálítið betur í saumana á því hvernig við náum að láta þessi kerfi öll, ef við getum sagt sem svo, tala betur saman. En mér finnst það ganga ágætlega og stjórnendur margra stofnana sýna því áhuga að svo megi verða.

Svo með það að málið klárist núna. Ég geri mér grein fyrir því að ég mæli heldur seint fyrir málinu. Það er komið fram í maí. Ég vil auðvitað að málið sé unnið vel í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en geri mér alveg grein fyrir því að ekki öll mín mál sem ég mæli fyrir í dag fara í gegn við lok þingsins ef starfsáætlun helst. Ég veit samt sem áður að þingið getur unnið mjög hratt og vel þegar það setur undir sig hausinn.