146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Ég ætla að leyfa mér að svara þessum góðu hugleiðingum hv. þingmanns. Vissulega er það sjónarmið að ríkið sjái um þetta allt saman, búi til kort og hvaðeina. Sá háttur hefur bara ekki verið hafður á hingað til. Þá hefur á grundvelli útboða verið samvinna við einkaaðila sem tekið hafa myndir og selt þær svo áfram. Hér er því velt upp hvort verðið geti ekki rokið upp ef þetta sé neglt svona niður. Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að allir skilmálar séu skýrir af hendi ríkisins. Við megum aldrei vera óskýr varðandi það sem við ætlum að gera. Hér er bara verið að halda áfram á sömu braut, í rauninni að fá upplýsingar hvaðanæva að. Vegagerðin safnar gögnum, en hún kaupir líka gögn. En Vegagerðin má deila t.d. gögnum í betri upplausn en Landmælingar geta boðið upp á. Það er það sem við erum að leiðrétta hér.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af kostnaði. Ég hef einmitt áhyggjur af sama kostnaði ef ríkið og stofnanir þess kaupa sömu gögnin margsinnis. Það er náttúrlega algjör firra. Þess vegna viljum við hafa þetta eins hjá Landmælingum og öðrum í stjórnsýslunni.