146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:26]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Mér liggur við að segja að mér hafi þótt ákveðinn dagur í janúar 2013 frekar merkilegur, það var dagurinn þegar Landmælingar Íslands gerðu þessi gögn aðgengileg, enda er það mjög Píratalegt að hafa gögn aðgengileg og opin og frjáls. Ég er sérstaklega ánægður með að hér skuli vera fellt úr gildi það ákvæði sem gefur Landmælingum Íslands leyfi til þess að selja efni í vörslu stofnunarinnar. Ég þykist vita að það sé líka sérlega gott að ekki sé lengur fastákveðið hver mælikvarðinn skuli vera, 1:50.000 sem notaður er að jafnaði. Tækniþróun sem tengist ferðamennsku kemur mér fyrst upp í hugann þegar ég skoða og velti þessu máli fyrir mér. Kort spila miklu stærra hlutverki í lífs hvers einstaklings í dag en þau gerðu fyrir fjórum, fimm árum. Nú förum við varla spönn frá rassi án þess að fá til þess einhvers konar leiðbeiningar og hjálp á grundvelli kortaupplýsinga.

Þetta mál er ekki nema að litlu leyti pólitískt í eðli sínu. Sú staðreynd að það skuli vera lagt fram hér í annað sinn er hins vegar svolítið sorglegur vitnisburður um starfshætti Alþingis. Eins og hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem hér situr vita erum við Píratar áhugasamir um að þingmálahalinn verði ekki skorinn af við hver þinglok. Mér finnst einhvern veginn eins og við fáum hér byr undir báða vængi í þeim málflutningi okkar öllum. Þetta er gagnlegt frumvarp sem er til framfara og þjóðinni allri til heilla. Ég hlakka til að taka á móti frumvarpinu og fjalla um það þegar það kemur til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd.