146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar Brynjólfsson sagði að hann teldi að þetta mál væri að litlu leyti pólitískt í eðli sínu. Ég ætla að leyfa mér að vera honum mjög ósammála. Þetta mál er nefnilega rammpólitískt, sem sést glögglega þegar saga þess er skoðuð. Þingmaðurinn nefndi t.d. að hér hefði sértekjukrafa Landmælinga verið afnumin við fjárlagavinnuna í desember 2012 sem kom til framkvæmda í janúar 2013. Þá var hér ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Það var vegna pólitískrar ákvörðunar þáverandi hæstv. umhverfisráðherra á niðurskurðartímum að afnema þessa 10 milljóna sértekjukröfu sem gögn Landmælinga voru gerð gjaldfrjáls og öllum aðgengileg.

Það er nefnilega þannig að það eimir enn þá eftir af einkavæðingardraugnum í þessum lögum, sem voru sett veturinn 2006/2007, þegar Landmælingum var sniðinn sá stakkur t.d. að mega ekki safna landupplýsingum í meiri upplausn en 1:50.000. Það var réttlætt í greinargerð með frumvarpi á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Tækni á sviði landupplýsinga hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og arðsemismöguleikar hafa skapast á sumum sviðum landupplýsinga og kortagerðar, sem hefur leitt til aukinnar sóknar einkafyrirtækja inn á þennan markað. Á sama tíma hefur ríkisvaldið verið að draga sig úr margs konar framleiðslu og þjónustustarfsemi.“

Það var vegna þeirrar trúar þáverandi stjórnvalda, stjórnar sem var hægri sinnuð og trúði á einkavæðingu, að hið opinbera ætti ekki að stunda arðbæra starfsemi þótt hún snerti grunninnviði samfélagsins og sú stofnun sem hefði með kortagerð að gera var allt í einu eina stofnun landsins þar sem var sérstaklega tekið út úr lögum um hlutverk hennar að hún mætti gefa út kort. Landmælingar Íslands höfðu til ársins 2007 það skilgreinda hlutverk að gefa út kort, það var tekið út. Á sama tíma voru þær skorður settar að upplýsingar Landmælinga mættu ekki vera í meiri upplausn en 1:50.000, sem er hlægileg krafa þegar öll gögn sem Landmælingar hafa safnað síðan þá eru í meiri upplausn, þannig að þær þurfa í rauninni að rýra gildi þeirra gagna sem í húsi eru til þess að geta uppfyllt þetta ákvæði, sem við erum sem betur fer að fara að nema úr gildi.

Þegar þessar breytingar voru til umræðu fyrir 11 árum var á það bent að ákvæði 4. gr. frumvarpsins, sem varð síðan 4. gr. laganna um hlutverk Landmælinga, skilgreindi verksvið stofnunarinnar of þröngt. Við atkvæðagreiðslu sagði hv. þáverandi þingmaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, með leyfi forseta:

„En með þessari lagagrein er stofnunin þvinguð, með öðrum orðum lögþvinguð, til að draga sig út úr samkeppnisrekstri og slíkt teljum við varasamt.“

Pólitíkin hefur verið í þessu máli um langa hríð. Við sama tækifæri benti Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi hæstv. ráðherra Vinstri grænna, á að málið væri unnið á allt of miklum hraða, með flaustri, þannig að hún óttaðist að í uppsiglingu væru mistök. Hún benti t.d. á, verandi þá nefndarmaður í umhverfisnefnd þingsins, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ljóst að það að tryggja að gögnin sem Landmælingar Íslands afla séu almannaeign og öllum aðgengileg endurgjaldslaust tel ég í sjálfu sér til mikilla bóta.“

Enda var þetta ein af þeim ábendingum sem hafði komið til nefndarinnar. En sökum þess flýtis sem var á afgreiðslu málsins rétt fyrir þinglok vorið 2006 var ekki tekið tillit til þess. Það var tekið tillit til þess loksins í janúar 2013 þegar ákvörðun á fjárlögum var notuð til að hleypa almenningi inn í gagnasett og gagnasafn Landmælinga. Nú er loksins, tíu árum síðar, verið að vinda ofan af flumbrugangi þingsins sumarið 2006.

Það er ánægjulegt að sjá hversu mikið gögn Landmælinga hafa verið notuð frá því að þau voru opnuð. Þar er gríðarlegur jarðvegur fyrir nýsköpun og framþróun. Frá því að landupplýsingar Landmælinga voru gerðar gjaldfrjálsar hafa um 1.900 manns skráð sig fyrir gögnum til niðurhals samkvæmt skýrslu stofnunarinnar um könnun á notkun og áhrifum. Þar er borað aðeins niður í hvernig notendur hafa nýtt sér þau. Rúmur helmingur notar þau reyndar ekki í nein verkefni heldur er aðeins að skoða þau. Það skemmtilega við opið aðgengi er að það er hægt að forvitnast, það er hægt að sjá hvort maður geti nýtt sér eitthvað og svo er hægt að ákveða að maður kannski vilji ekkert gera það.

Í könnun Landmælinga kemur fram, með leyfi forseta:

„Ef tölurnar eru rýndar ítarlega eru það 159 notendur sem svara já“ — við spurningunni hvort niðurhal á gögnum Landmælinga hafi orðið kveikja að nýsköpun á vöru eða þjónustu.

Það eru 159 einstaklingar sem með því að nota þessi aðgengilegu gögn fengu hugmynd, hvort sem hún varð að veruleika eða ekki, fengu þarna neista sem gat orðið að einhverju. Það kemur raunar í ljós að ekki færri en 67 nýjar vörur og þjónustur hafi orðið til vegna gjaldfrelsis gagnanna eða aðgengis að þeim.

Aðgengi að gögnunum hefur því haft tilætluð áhrif. Þess vegna fagnar maður því að sjálfsögðu að hæstv. ráðherra taki þessar niðurstöður og vinni með þær af skynsemi og festi í sessi heimild Landmælinga til að dreifa þessum gögnum endurgjaldslaust með opnum notkunarskilmálum til að þessar 67 nýju vörur eða þjónustur sem hafa orðið nú þegar verði innan nokkurra ára 670, eða hvað það er, þannig að nýsköpun haldi áfram.

Mig langar aðeins að víkja að næsta skrefi sem ég tel þurfa að taka í þessu máli sem tengist lögum nr. 44/2011, um grunngerð stafrænna landupplýsinga, sem innleiðir IINSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins um samræmda notkun landupplýsinga. Þar vil ég aftur vísa til könnunar sem Landmælingar hafa gefið út, könnun sem hefur verið gerð annað hvert ár, síðast haustið 2015, meðal stofnana bæði ríkisins og sveitarfélaga um það hvaða landupplýsingar þær hefðu í fórum sér.

Það er niðurstaða þessarar könnunar að í það minnsta 32 stofnanir í landinu hafi í sinni vörslu 326 gagnasett sem mögulega ættu erindi inn í upplýsingakerfi Landmælinga Íslands. Um þau gagnasett gildir hið sama og um gögnin sem Landmælingar búa yfir. Þetta eru yfirleitt upplýsingar sem aflað hefur verið fyrir almannafé í almannaþágu og eiga því fullt erindi til almennings í opnum frjálsum aðgangi. Hér er verk að vinna, m.a. þarf að samræma form gagnanna og eiga samstarf við þessar stofnanir til að þær tengi gagnagrunna sína við Landmælingar. Í skýrslunni kemur fram að í flestum tilfellum sé raunar fremur auðvelt að reiða gögnin fram á einhvern hátt sem megi nýta við landupplýsingavinnslu. Drjúgur meiri hluti gagnanna er nú þegar á GIS-formi. Svo er ýmislegt annað notað en þó oftast form sem er lítið mál að koma yfir á form sem Landmælingar geta á stuttum tíma spænt inn í kerfi sín.

Þegar við erum búin að taka það skref að samþykkja frumvarp hæstv. ráðherra held ég að sé lag að halda áfram og koma meiri upplýsingum inn í þennan grunn.

Ég hef lokið máli mínu.