146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefði best þótt fara á því að við hefðum staðið hér fyrir mánuði til að ræða þetta mál í 1. umr. Ég sé ekki að það skipti höfuðmáli hvort mál lifi milli þinga eða ekki. Vandinn við þingstörfin er miklu frekar sá að ríkisstjórnir allra tíma gera sér óraunhæfar væntingar um fjölda mála sem þær geta klárað þegar þær útbúa þingmálaskrá sína og gera sér enn óraunhæfari tímaplön þegar kemur að framlagningu þeirra, þannig að á síðasta skiladegi fyllast öll skjalahólf af verkefnum sem hafa verið unnin nóttina áður til þess að það náist að mæla fyrir þeim. Fyrir vikið erum við alltaf síðasta mánuð þingsins að taka 1. umr. um mál sem öllum er ljóst að munu ekki ná fram að ganga. Ég vona að sú verði ekki raunin með þetta mál.