146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var bara svo gaman að hlusta á google-leiðina og ferðalagið sem hv. þingmaður tók okkur með í upp í Mosfellsbæ. Það er akkúrat þetta. Það er svo mikilvægt að þær upplýsingar sem liggja fyrir séu fyrir aðra, eins og fyrir Google Maps, að það jarðstöðvanet, sem er nú annað hlutverk Landmælinga Íslands sem við höfum ekki mikið talað um hér, þ.e. að Landmælingar Íslands halda úti og standa fyrir því sem kallað er jarðstöðvanet þar sem GPS-punktar eru settir niður. Oft er rætt um, þó að hv. þingmaður hafi ekki gert það, hvort einkaaðilar geti ekki bara tekið að sér allt sem Landmælingar gera. Það er ýmislegt sem okkur ber sem stjórnsýslu og út af öryggisatriðum að sinna, t.d. að hafa þetta jarðstöðvanet rétt og hafa það þannig að aðrir geti nýtt það og hafa það í þeirri upplausn sem þarf til að við getum útvíkkað og bætt við fullt af leiðum sem menn geta nýtt sér, meira að segja, og sem betur fer, í viðskiptalegum tilgangi eins og Google Maps gerir.

Mig langaði bara að koma þessu að. Þetta er annað atriði og annað hlutverk sem Landmælingar Íslands hafa sem skiptir miklu máli fyrir okkur.