146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna sem snýst um þennan strúktúr. Við erum að ræða ný og uppfærð lög, löngu tímabundin lög um landgræðslu og á eftir komumst við vonandi í skógræktina. Það er mjög góð ábending og spurning af hverju þessum lögum er ekki bara steypt saman, ef ég skil spurningu hv. þingmanns rétt. Það er umhugsunarefni að færa þetta allt undir náttúruverndarlögin. En þegar hv. þingmaður skoðar næsta lagabálk sem við tökum fyrir sér hann að lögin um skógrækt og lögin um landgræðslu tala mjög vel saman. Þau eru af sama meiði. Það er verið að ræða endurheimt vistkerfa, náttúruverndina, skipulag á bæði landgræðslu og skógrækt ef maður getur sagt sem svo. Einhvern tímann verða bæði þessi lög partur af einni stofnun, ég veit það ekki, en þetta er eitt skref sem við stígum nú í dag.