146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr mig hvort við séum þá að stíga óþarft milliskref með því að vera að uppfæra þessa tvo lagabálka frekar en að anda í kviðinn og vinna greiningarvinnuna til enda, koma síðan aftur saman eftir eitt til tvö ár með tillögur um það hvernig megi sameina þá, hvernig megi skoða tillögur, sem Capacent gerði fyrir átta árum, um að sameina þjóðgarða og friðlýst svæði undir eina stofnun og landgræðslu og skógrækt undir aðra, jafnvel að þessar tvær stofnanir ættu heima saman. Það eru nefnilega sóknarfæri á þessu sviði, það þarf að efla faglegt starf.

Ég myndi vilja spyrja ráðherrann, af því að þetta gerist ekki af sjálfu sér, ráðherrann þarf að taka pólitíska afstöðu til þess, hvort hún sjái fyrir sér að setja einhverja slíka vinnu af stað, óháð því hvernig þessum tveimur málum reiðir af hér á þessu þingi.

Ráðherrann nefndi þessi tvö frumvörp, annars vegar frumvarp til laga um landgræðslu, sem við erum að tala um núna, og frumvarp til laga um skóga og skógrækt, sem við ræðum næst. Ráðherra nefndi að þessi lög tali vel saman. Það er vægt að orði kveðið. Þeim er slegið saman í texta greinargerðar. Þannig er til dæmis, í kafla um samráð í frumvarpi um landgræðslu, sagt að nefnd ráðherra hafi gert tillögur að nýjum lögum um skógrækt. Í greinargerð með landgræðslulögum er þannig sagt að verið sé að fjalla um skógræktarlög; svo keimlíkir eru þessir textar að maður má varla hósta þá fer maður að rugla þeim saman.