146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna framlagningu nýrra laga um landgræðslu sem og skógrækt, enda löngu tímabært þar sem lögin eru orðin gömul og þarfnast uppfærslu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan að þessir tveir lagabálkar væru af sama meiði. Ég hef því tvær spurningar og ætla að nota andsvar fyrir hvora spurningu.

Í sambandi við stuðning við landgræðslu, versus skógrækt sem verður fjallað um síðar, er fjallað um hann í 8. gr. þar sem Landgræðslunni er heimilt að hvetja til og styðja verkefni, en í sjálfu sér eru ekki settir neinir fjármunir í það. Nú býst ég við að hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að landgræðsla sé eitthvert það almikilvægasta sem við getum gert til þess að stöðva fok og græða upp land, til að mynda til þess að forðast mengun á Þingvallavatni. Ég hef upplýsingar um að helsti mengunarvaldurinn sé einmitt fok sem komi af óuppgræddu landi.

Þá er spurningin þessi: Í skógræktarlögum er talað um að gera samninga til 40 ára við þá sem eiga land og að styðja allt að 97% af þeim kostnaði sem menn eru í í skógrækt. Kom það ekkert til álita að setja inn einhver sambærileg efni varðandi stuðning til landgræðslu? Eða á það að vera áfram, sem hefur reyndar gengið mjög vel í verkefninu Bændur græða landið, þar sem einhverjir 640 bændur vinna í sjálfboðavinnu við það, afréttarfélög, uppgræðslufélög, fjallskilafélög og alls kyns önnur félög, (Forseti hringir.) frjáls félagasamtök sem vinna í sjálfboðavinnu? (Forseti hringir.) Landgræðslan hefur í vaxandi (Forseti hringir.) mæli fengið of lítil framlög til þess (Forseti hringir.) að vera hvetjandi. Hefur það ekki komið til greina að velta (Forseti hringir.) þessu upp (Forseti hringir.) um sambærilegan stuðning?