146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að nota þennan tíma til að reifa eitt og annað tengt þessu frumvarpi. Hér liggur að baki yfir 100 ára saga og ég vona auðvitað að ný lög, verði þau til sem ég reikna með, hvetji til enn röskari aðgerða en við höfum séð þá rúmu öld sem liðin er. Í frumvarpinu sem mér finnst að mörgu leyti prýðilegt eru ýmsir ljósir og góðir punktar og ákaflega gagnleg markmið. Því til vitnis eru ýmiss konar verkefni, m.a. landgræðsluaðgerðir sem kosta tugi eða hundruð milljóna á ári. Í frumvarpinu er haldið til streitu landgræðsluáætlun samkvæmt 6. gr. og svæðisáætlunum samkvæmt 7. gr. og hvort tveggja skiptir verulegu máli varðandi framgang landgræðsluáætlananna sem um ræðir.

Ýmis stór verkefni hafa sýnt gríðarlegan árangur, eins og Hekluskógar. Núna er fram undan álíka verkefni í nánd við Þorlákshöfn þar sem á að leggja 20 milljónir á ári í 20 ár til að gera það land að allt öðru en það er nú til dags.

Enn fremur eru í þessu frumvarpi festar í sessi grunnrannsóknir. Ég nefni t.d. grunnrannsóknir á votlendi sem eru gríðarlega mikilvægar og krefjast nokkurra tuga milljóna hið minnsta. Það er líka fest í sessi vöktun sem er kostnaðarsamt fyrirbæri en ákaflega nauðsynlegt, bæði til að fylgjast með árangri landgræðslunnar og eins hvernig land fer þar sem landgræðsla er ekki viðhöfð.

Loks er ný skilgreining um endurheimt vistkerfa sem ekki var til fyrir svo löngu síðan. Menn horfðu ekki á vistkerfin sem samfellu og mörg vistkerfi þar með sem grípa hvert inn í annað þannig að skilningurinn var ekki eins fullkominn og nú þegar vistkerfishugsunin er komin inn í alla landgræðslu. Þá er mikilvægt að minna á að þótt menn tali um endurheimt vistkerfa eru þeir ekki endilega að hugsa um að horfa til sama lands og hér var við landnám. Þetta er miklu flóknara en svo. Hér búa nú nokkru fleiri en gerðu til að byrja með.

Skemmst er frá því að segja að endurheimt vistkerfa hefur nú náð þeim árangri að við höfum u.þ.b. æstætt eða stöðugt ástand sem þýðir að það sem endurheimtist er nokkurn veginn það sama og tapast. Við erum þannig í ákveðnu jafnvægi og það hvetur til enn meiri aðgerða en hingað til til þess að komast upp úr hjólförunum.

Mig langar enn fremur að nefna það sem ég kalla hina hlið landgræðslunnar, sjálfbæra landnýtingu. Hún snýr að ýmsum atvinnugreinum, t.d. landbúnaði, og þar eru tvö stór mál sem kannski yfirgnæfa margt annað. Sauðfjárbeitarstýring er ekki nógu langt komin. Sums staðar er hún komin svo langt að menn beita í uppgræddu heimalandi, annars staðar er hún þannig komin að menn beita ágætlega beitarhæf lönd og á enn öðrum stöðum er ástandið þannig að það er verið að beita land sem er varla eða alls ekki beitarhæft. Annað sem skiptir gríðarlegu máli og kom fram í máli landgræðslustjóra sem hitti okkur í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir ekki löngu er hugtakið seyra. Þannig er að seyran sem hverfur af höfuðborgarsvæðinu út í sjó er jafn mikil að áburðargildi og allur innfluttur áburður. Ég nefni þetta vegna þess að sjálfbær landnýting snýst um annað og meira en beitarstýringu, hún snýst líka um að nýta það sem til fellur. Þetta er eitt af því.

Annað atriði sem snertir sjálfbæra landnýtingu er ferðaþjónustan. Margoft hefur komið fram að álagið á mjög marga ferðamannastaði og ferðamannaslóðir er komið úr hófi fram og nú þegar hafa orðið landskemmdir sem er mjög erfitt að gera við nema setja í þær viðgerðir verulegar fjárhæðir sem liggja ekki á lausu.

Í þriðja lagi langar mig að nefna varðandi sjálfbæra landnýtingu nokkuð sem heyrist ákaflega sjaldan í umræðunni, það sem ég kalla námarekstur. Námarekstur á Íslandi snýst fyrst og fremst um efnisnám. Samkvæmt gamalli úttekt, ég þori ekki að segja hvort hún er 10 eða 15 ára, voru yfir 3.000 efnisnámur á Íslandi. Eins og menn vita er efnistaka ekki sjálfbær landnýting vegna þess að það er ekki hægt að bæta fyrir efni sem tekið er, en hitt er svo annað mál að það er nánast regla að raskið sem verður er óbætt. Ef landgræðslulög taka á þessu þannig að mönnum verði skylt að ganga eins vel frá opnum námum og hægt er er það verulega til bóta.

Annað sem mig langar að nefna er náin tengsl landgræðslunnar og loftslagsmála, þá fyrst og fremst binding kolefnis sem þar kemur til. Þannig háttar til á Íslandi að binding kolefnis er mjög hagstæð, þ.e. íslenskur jarðvegur er þannig úr garði gerður að komist gróðurfar í gott horf sem og binding er hún mjög há. Það er auðvelt og þakklátt starf að stunda bindingu kolefnis með því að græða upp auðnir á Íslandi þar sem það á við og eins að gera við illa farið land.

Það hefur komið fram að það er hægt að fjórfalda bindingu kolefnis á Íslandi með landgræðslu með því að leggja í það 1 milljarð á ári. Tvöföldun kostar u.þ.b. 500 millj. kr. á ári.

Við erum að keppast við að ná ákveðnum loftslagsmarkmiðum samkvæmt Parísarsamkomulaginu þannig að landgræðsla hlýtur að skipta máli en þá verður maður alltaf að muna að það verður aðeins takmarkað leyfi til að nota bindingu sem aðgerð til að ná Parísarmarkmiðunum. Það þarf jafnframt að minnka losun, þá í meira mæli en menn binda með kolefnum. Það er sem sagt ekki hægt að koma til móts við losun orkufreks iðnaðar á Íslandi með því einu að planta skógi.

Mig langar svo að nefna varnir gegn landbroti sem eru meðal hlutverka Landgræðslunnar. Það varðar ótal atriði, t.d. hlaup vegna jarðhita, samanber Skaftárhlaup, landbrot vegna jökulvatna og landbrot vegna hlaupa sem verða af völdum eldgosa. Allt þetta þrennt sem ég nefni er heldur á uppleið ef eitthvað er. Sum af jarðhitasvæðunum sem gefa frá sér jökulhlaup eru að eflast. Jökulvötn á Íslandi eru að auka rennsli sitt vegna aukinnar bráðnunar jökla. Svo liggur fyrir að stórar eldstöðvar sem við vitum að eru þekktar að öflugum jökulhlaupum, hvort sem er t.d. Bárðarbunga eða Katla, jafnvel Grímsvötn, eru allar í ákveðinni skotstöðu þannig að það er alveg áreiðanlegt að þessi starfsþáttur hjá Landgræðslunni á eftir að aukast og svo kemur Vegagerðin inn í það ef þetta eru mjög stórir atburðir. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu af myndarskap, bæði fjárhagslega og með réttu orðalagi í þessum ágætu lögum.

Í það heila er þetta frumvarp að mörgu leyti skýrandi. Nú fáum við umsagnir og hv. umhverfis- og samgöngunefnd fer sínum höndum um þær. Eflaust verða einhverjar endurbætur á frumvarpinu en mig langar í því augnamiði að koma aðeins inn á það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi, breytingar á stofnanaumhverfi og því skylt. Ég hef talað fyrir auðlindastofnun, hvaða heiti sem við myndum nota yfir slíka stofnun, og hef þar m.a. stuðst við minnisblöð Sveins Runólfssonar, fyrrverandi landgræðslustjóra, þar sem upplýsingum um þessa starfsemi, skógrækt, landgræðslu, þjóðgarða, eitt og annað sem snertir ferðaþjónustuna í landinu, yrði safnað saman undir slíka stofnun og þar með að lög sem verða hugsanlega afgreidd fljótlega, hvort sem er um landgræðslu eða skógrækt, yrðu sameinuð í einn lagabálk um slíka stofnun. Ég held að það sé löngu kominn tími til að fara yfir þetta, skoða nákvæmlega með hvaða hætti þetta getur gerst sem best og skipta þar verkum milli annars vegar Umhverfisstofnunar, eins og þau verk eru nú, og nýrrar stofnunar sem hefur öll tól og tæki til að höndla þessi mál sem okkur finnast svona gríðarlega mikilvæg og varða mál málanna svo miklu, loftslagsmálin.