146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér löngu tímabæru uppfærslu á ákvæðum sem snerta landgræðslu. Hér á eftir er á dagskrá jafn tímabær uppfærsla ákvæða sem snerta skógrækt. Þetta eru einhver elstu lög sem við höfum í fullri virkni. Þau eru löngu úrelt árið 2017 eins og þau voru löngu úrelt árið 2007. Þau verða ekkert mikið úreltari árið 2019 en þau eru árið 2017. Ég spyr mig hvort ekki sé tilefni til að staldra við og byggja á þeirri greiningarvinnu sem unnin hefur verið á síðustu árum sem sýnir æ ofan í æ að það sé gríðarlegt hagræði, bæði faglega og rekstrarlega, að því að sameina verkefni Landgræðslu og Skógræktar.

Það er málaflokkunum ekki til sóma að fjalla á handahlaupum undir þinglok þennan maímánuð um tvo heildarlagabálka um þessa málaflokka og væri miklu betra að leggja þá til hliðar þessi frumvörp og koma vinnunni í þann farveg að úr þessum frumvörpum yrðu heildarlög um landgræðslu og skógrækt eða þau verði felld inn í náttúruverndarlög, eins og lagt er til í hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, eða hvað annað sem best þætti með þessi lög.

Í greinargerð með frumvarpinu er t.d. nefnt að samráð hafi þurft að hafa við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti varðandi samspil frumvarps til laga um landgræðslu þar sem þau snertu lög um afréttamál, fjallskil og fleira, lög um búfjárhald og jarðalög. Það er nefnilega mjög flókið lagaumhverfi í kringum nýtingu, vernd og endurheimt jarðgæða.

Það væri ekki úr vegi að ráðuneytið mótaði nýja stefnu og kæmi með ný heildarlög frekar en að koma með þessi tvö stakstæðu mál sem byggja á stefnumótun frá árinu 2012.

Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi hafa verið uppi hugmyndir um stofnun sem gæti tekið til ekki einungis endurheimtra landgæða heldur einnig umsjónar með friðlýstum svæðum. Sú umsýsla er í dag á allt of mörgum höndum. Góðu heilli færðist reyndar yfirumsjón Þingvallaþjóðgarðar og verkefni Þingvallanefndar undir hatt umhverfisráðuneytis við stjórnarskipti, þannig að þjóðgarðar og friðlýst svæði eru í dag innan sama ráðuneytis þótt enn séu þessi svæði vistuð í þremur aðskildum stofnunum.

Í andsvari við hæstv. ráðherra áðan gætti þess misskilnings hjá ráðherranum að það væri eitthvað óljóst hvort ég vildi heildarendurskoðun á umhverfinu öllu, skógrækt, landgræðslu og eftir atvikum einhverjum öðrum lagabálkum sem ætti þá að steypa saman í ný almennileg heildarlög, eða hvort ég væri að tala fyrir því að við myndum kýla á þær breytingar sem hér er lagt til að verði ráðist í. Bara svo það sé sagt og sé alveg á hreinu þá er ég heildarendurskoðunarsinni. Ég lít á þessi tvö aðskildu frumvörp sem nánast jafn mikla tímaskekkju og þau lög sem þau leysa af hólmi, sem eru orðin allt of gömul til að geta gegnt hlutverki sínu með sóma.

Svo læðist að mér uggur þegar ég les greinargerðir með frumvörpunum. Þær eru rangar, frú forseti. Við erum hér að tala um tvær heildarendurskoðanir, tvo nýja lagabálka um mikilvæg svið í náttúru Íslands og ráðuneytið skilar hér texta sem er augljóslega rangur. Ég les hér upp úr greinargerð með frumvarpi til laga um landgræðslu, með leyfi forseta:

„Eins og áður hefur komið fram setti umhverfisráðherra á fót nefnd til að gera tillögur að inntaki nýrra laga um skógrækt.“

Í frumvarpi til laga um landgræðslu er allt í einu talað um að hér sé frumvarp til laga um skógrækt. Ég ætla að leyfa mér frú forseti, að grípa niður í næsta frumvarp á dagskrá þó ekki séum við að ræða það, það er frumvarp til laga um skóga og skógrækt. Þar les ég sömuleiðis í V. kafla um samráð í þeirri greinargerð, með leyfi forseta:

„Eins og áður hefur komið fram setti umhverfisráðherra á fót nefnd til að gera tillögur að inntaki nýrra laga um landgræðslu.“

Hvað fleira hefur víxlast á milli þessara mála? Getum við afgreitt þessi mál í trausti þess að ekki séu fleiri krosssmitanir á milli frumvarps til laga um skóga og skógrækt og frumvarps til laga um landgræðslu? Á umhverfis- og samgöngunefnd að fara að verja dýrmætum tíma sínum hér á lokametrum þings í að lúslesa þessi tvö frumvörp um heildarendurskoðun á mikilvægum lagabálkum til þess að koma í veg fyrir að við séum að setja lög á röngum upplýsingum á einhverjum „copy/paste“-vitleysum uppi í ráðuneyti? Hvað fleira er svona? Þetta eru tvær setningar sem ég rakst á bara af tilviljun, tvær setningar á 50 síðum. Hvað skyldu þær vera margar til viðbótar?

Ég hef áhyggjur þegar hæstv. ráðherra kemur til þings með mál sem innihalda villur. Ég hef áhyggjur af að við eigum að setja lög á þeim grunni. Sérstaklega hef ég áhyggjur ef það á að gerast með þeim hætti að mælt sé fyrir máli 3. maí þegar starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir því að hér sé þingfrestun 31. maí, nóg er af málum til að afgreiða og lítill tími, þannig að við eigum að hlaupa hér í gegnum mál sem eru svo augljóslega vanbúin.

Frú forseti. Ég myndi jafnvel halda að þessar villur einar og sér væru tilefni til þess að ráðuneytið myndi einfaldlega kalla þessi mál aftur á hús. Þá gefst nú alveg tími til að setja í gang þá heildarendurskoðun sem ég hef hér sagt að full ástæða sé til að ráðast í.