146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er það of mikil krafa á hv. þingmann að hann lúslesi frumvörp, eins og hann segir? Ég ætlast ekki til þess að hann vinni vinnuna fyrir mig og ráðuneyti mitt, alls ekki, ég fagna því bara að hafa fengið ábendingu um innsláttarvillur. Eins og ég sagði áðan voru þessi tvö frumvörp unnin að maður getur sagt heildstætt, þau tala vel saman og kannski að þessum hluta einum of vel saman. Þetta eru mistök. Ef það er of mikið fyrir hv. þingmann að lúslesa frumvörpin til þess að athuga með villur skal ég fullvissa hann um það að við munum gera það sjálf í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, hann þarf ekki að leggjast yfir frumvörpin nema hann vilji. Við munum auðvitað vilja koma fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd og fjalla um málið og getum þá skilað því til nefndarinnar ef einhverju er við að bæta. En mér finnst dálítið skringilegt, verð ég að segja, hjá hv. þingmanni sem hefur talað fyrir sjálfbærri nálgun og náttúruvernd, og þessi frumvörp tala inn í það, það frumvarp sem við erum að ræða talar inn í það, að hann setji fyrir sig tvær innsláttarvillur þegar það á að fara að fjalla um málið í nefnd. Mér finnst það hálfdapurlegt.