146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður vera þeirrar skoðunar að ekki væri nægilegt að leggja fram tvö frumvörp, annars vegar um landgræðslu og hins vegar skógrækt, heldur hefði hann gjarnan viljað sjá sameiginlegt frumvarp og þá væntanlega um nýja stofnun. Þar sem ég heyrði jafnframt á málflutningi flokksfélaga hans, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, að hann sæi gjarnan fyrir sér auðlindastofnun eða eitthvað slíkt langaði mig að heyra aðeins nánar ofan í hugmyndir Vinstri grænna, ef þær eru fyrir hendi, þar sem þarna eru tveir þingmenn búnir að tjá sig um þetta. Við sem þekkjum þessa málaflokka vitum að hér er um að ræða tvær landsbyggðarstofnanir sem m.a. hafa orðið til þess að það er augljós togstreita um að sameina þær. Menn eru einfaldlega hræddir um hvar höfuðstöðvarnar yrðu.

Ég vildi gjarnan heyra hjá hv. þingmanni hvort menn hafi útfært þetta eitthvað nánar, ef menn eru að velta fyrir sér að taka enn fleiri þætti inn í þessar stofnanir en eru í dag. Sjá menn hjá Vinstri grænum þá fyrir sér að slík stofnun yrði á höfuðborgarsvæðinu, eins og höfuðstöðvar Umhverfisstofnunar, höfuðstöðvar þjóðgarða, höfuðstöðvar þess að stýra öllu landinu og uppbyggingu þess, hvort sem er í skógrækt eða landgræðslu sem mest er unnin úti á landi, frá einni stórri sameiginlegri stofnun á höfuðborgarsvæðinu eða hafa menn útfært þessa hugmynd einhvern veginn öðruvísi hjá flokki hv. þingmanns?