146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Það er styrkur stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hversu öflugt starf þær hafa úti um land. Það helgast m.a. af því að eðli þess að vera gæslumenn landsins kallar oft á að menn þurfa að vera hjá því landi sem þeir eiga að gæta. Fyrst þingmaðurinn vék að Umhverfisstofnun má t.d. nefna að helmingur starfsmanna hennar er staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins. Ef ég man rétt eru fá ráðuneyti með stofnanir sem starfa jafn víða um landið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Nú er t.d. nýbúið að færa höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs út á land eins og stóð til í upphafi en þáverandi umhverfisráðherra, sem mig minnir að hafi verið samflokkskona fyrirspyrjanda, ákvað að staðsetja þær í Reykjavík. (Gripið fram í.) Það voru kratarnir, segir hv. þingmaður. Því skal ég trúa.

Ég held að við þingmaðurinn séum sammála um að allar hugmyndir um sameiningu á þessu sviði hljóti að taka mið af verkefninu og þeim árangri sem við viljum ná í náttúruvernd. Með sameiningu stofnana fækkar vissulega höfuðstöðvum en við það þyrfti jafnframt að gæta þess að starfið héldist eftir sem áður öflugt um landið. Þar held ég að við getum verið fullkomlega sammála.

Þá langar mig að nefna annan samflokksmann þingmannsins sem ég held að hafi örugglega verið fyrstur til að vinna eina af þessum skýrslum um sameiningu Landgræðslu og Skógræktar, þáverandi landbúnaðarráðherra, (Forseti hringir.) Guðna Ágústsson, sem árið 2006 setti þá (Forseti hringir.) vinnu af stað af því að það er sama hvar menn eru í flokki staddir, þeir geta (Forseti hringir.) ratað (Forseti hringir.) að góðum hugmyndum og elt þær uppi.