146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að minna mig á þann hluta fyrri spurningar hans sem ég svaraði ekki sem sneri að stefnu Vinstri grænna í málinu. Við hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson erum kannski meira að fabúlera og velta vöngum yfir því hvernig megi vinna náttúruvernd til hagsbóta. Fyrir síðustu kosningar var eitt af kosningastefnumálum okkar að koma þjóðgörðum á friðlýstum svæðum undir einn hatt. Hinn endinn á þeirri spýtu væri væntanlega eitthvað sem snýr að landgræðslu, skógrækt og öðrum slíkum verkefnum. Þetta eru ekki fastmótaðar skoðanir eða meitlaðar í stein heldur nokkuð sem ég tel fulla ástæðu fyrir okkur, alveg eins og ráðuneytið, að skoða og ræða.

Þingmaðurinn nefndi misræmið sem er á milli þeirra samninga sem hið opinbera gerir og þess stuðnings sem skógræktarbændur njóta annars vegar og bændur sem sinna landgræðslu hins vegar. Þetta er nokkuð sem þarf að skoða. Mig langar að bæta einum flokki bænda enn í hópinn, þeim bændum sem hafa á sínum landareignum friðlýst svæði, náttúruvætti, önnur dýrmæt landsvæði eða náttúruminjar ýmiss konar, eða menningarminjar ef við förum út í þann bálk. Þeir bændur ættu að geta gengið í einhvers konar samning við hið opinbera um að gæta þeirra sameiginlegu gæða. Alveg eins og við umbunum bændum fyrir að rækta skóg ættu náttúruverndarbændur að vera hópur bænda og vösk sveit (Forseti hringir.) sem ynni náttúru Íslands til hagsbóta.