146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Aðeins fyrst að víkja að tóninum, ég er náttúrlega viðkvæmt blóm og undir hrjúfu yfirborðinu leynist viðkvæm sál. Ég biðst forláts hafi ég lesið um of í tóninn. Það var alls ekki illa meint enda taldi ég mig koma því á framfæri í mínum kveðskap. Mér fannst við vera hætt að ræða efnisatriði málsins í umræðunni og farin að tala fullmikið um hvort hv. umhverfis- og samgöngunefnd ætti að fara að leita að einhverjum villum eða ekki.

En nóg um það.

Aðeins um hitt sem hæstv. ráðherra kom inn á, lög um vistendurheimt. Já, vissulega eru þau það, en eru lög um skógrækt það ekki líka að einhverju leyti? Það sem ég er að tala um er skýrari heildarsýn í málaflokknum, að hluti af lögum um vistendurheimt eigi ekki endilega heima í lögum um landgræðslu og hluti í lögum um skógrækt. Ég veit það ekki. Kannski er það rétt. Ég er alveg tilbúinn að hlusta á rök um það en hef ekki enn heyrt af hverju nauðsynlegt er að það sé t.d. ekki sameinað í eina stofnun, sett ein heildstæð lög um vistendurheimt en ekki verið að skipta á milli eftir því hvernig við endurheimtum vistkerfi.

Það er sú framtíðarsýn sem ég er að tala um. Ég er alveg sammála um að þetta er bráðnauðsynlegt verkefni þegar kemur að loftslagsmálum, en erum við að segja að ef ekki næst að klára þessar breytingar hér fyrir vorið muni Landgræðslan ekki halda áfram sínu góða starfi? (Forseti hringir.) Munum við tefjast í því að ná að uppfylla Parísarsamkomulagið? Það eru alvarleg tíðindi ef ráðherra er að boða það.