146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það vekur nokkra undrun að ríkisstjórnin fari fram með þeim hætti sem hún gerir, að taka ákvarðanir án aðkomu þingsins, ekki síst í ljósi þess hvað menn hafa talað mikið um vönduð vinnubrögð, minna fúsk, meira gegnsæi, meira samráð, ekki síst við minni hlutann. Mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Viðreisnar, hafi lagt til að setja á laggirnar starfshóp til að bæta vinnubrögð á Alþingi og við stjórnarsáttmála, yfirlýsinguna, talaði hann um að það þyrfti augljóslega að hafa verulega aukið samráð við minni hlutann.

Trekk í trekk, nú er það kannski spurningin hvort Ármúlinn sé sérstaklega valinn, að þar eigi bara að einkavæða alla götuna því að við vitum að ríkisstjórnin einkavæddi heilbrigðisþjónustu hinum megin við veginn og núna er hún komin þarna megin við götuna. Það er spurning hvaða gata verður undir næst — án aðkomu þingsins, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)