146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og öðrum þingmönnum brá mér nokkuð þegar við heyrðum fréttir í morgun um þessi nýjustu áform um að einkavæða Ármúlann í heild sinni. Mér finnst með öllu ólíðandi að ekki sé neitt samráð haft við þingið og farið sé í framkvæmdir af þessu tagi án þess að hægt sé að fara heildrænt yfir það hvert við stefnum. Það sem er svolítið dapurlegt, og kom mjög skýrt fram þegar samningaviðræður stóðu á milli fimm flokka um hugsanlegt stjórnarstarf, er að bæði Viðreisn og Björt framtíð hugðust ekki fara út í neinar einkavæðingar á menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu. Það virðist vera sem við séum nú með Sjálfstæðisflokkinn einráðan í þessu stjórnarsamstarfi. Ég óska eftir því að þingmenn og ráðherrar frá Viðreisn og Bjartri framtíð segi hug sinn gagnvart svona vinnubrögðum því að þetta er ekki í anda opinnar stjórnsýslu sem hér var lofað.