146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn Alþingis, þó ekki endilega þennan fund, og bara við fundina. Við áttum fyrir ekki löngu síðan, fyrir nokkrum dögum síðan, að ég taldi ágætisfund með menntamálaráðherra þar sem við ræddum fjármálaáætlunina, við ræddum framhaldsskólastigið. Það kom ekkert fram á þeim fundi um að til stæði að fara að sameina tvo skóla. Ekkert. Ég spyr einfaldlega: Hvað gerðist á nokkrum dögum, ef þetta er að fara að gerast núna? Við höfum líka verið með í nefndinni beiðni um fund um framtíð verk- og starfsnáms sem er eitthvað sem sveitarfélög hringinn í kringum landið kalla eftir að verði eflt.

Þegar við ræðum kosningaloforð þá gátu kjósendur Sjálfstæðisflokksins alla vega séð að stefnan var að tryggja að peningarnir yrðu ekki skertir inn í framhaldsskólastigið miðað við þá fjármálaáætlun sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu.

Ég spyr: (Forseti hringir.) Hvað breyttist? Ætla þingmenn Bjartar framtíðar og Viðreisnar ekki að koma hér og segja að þetta sé á þeirra ábyrgð? (Forseti hringir.) Að það séu þeir sem standa því að verið er að skera niður frá því sem fyrri (Forseti hringir.) fjármálaáætlun stóð fyrir? Eða er það ráðherrann sjálfur? (Forseti hringir.) Við þurfum að fá svör við því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)