146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru algerlega óboðleg vinnubrögð hjá hæstv. menntamálaráðherra, að það þurfi að koma í fjölmiðlum að til standi að einkavæða framhaldsskóla án þess að farið hafi fram nokkur umræða á Alþingi um það mál. Það er auðvitað sérstaklega skammarlegt að þetta gerist á sama tíma og við erum að ræða um fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Fyrst ráðherrann er ekki staddur á landinu og getur því ekki komið hingað til að standa fyrir máli sínu og eiga samtal við Alþingi vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta að sá ráðherra sem gegnir embætti fyrir hann meðan hann er erlendis komi hingað og svari spurningum. Ef enginn ráðherra gegnir embætti fyrir hæstv. menntamálaráðherra meðan hann er í burtu þá komi hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóri hæstv. ríkisstjórnar og eigi þetta samtal. Þetta samtal má ekki bíða. Það þarf að eiga sér stað strax.