146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Nú munum við heyra gamalkunnug stef um að þetta séu mögulega bara einhverjar pælingar í stjórnarmeirihlutanum og ekki sé búið að taka neinar ákvarðanir. Ég vil því koma því á framfæri að við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að rektor a.m.k. annars skólans hafi látið nánasta samstarfsfólk sitt vita af þessu en verið gert að þegja yfir því þar til ráðherra sjálfum hentaði að tilkynna það opinberlega. Hvers konar framkoma er það, spyr ég, gagnvart fólki, að láta starfsfólk skólanna lifa í óvissu og láta yfirmenn þeirra vera svarna til trúnaðar svo að þeir megi ekki einu sinni segja sínu fólki hvað er í vændum, af því að ráðherra vill endilega gera það sjálfur?

Svo fáum við bara fram að það sé ekkert ákveðið. Væri ekki heiðarlegra og stórmannlegra, ekki síst núna, að koma bara hreint fram, segja hlutina eins og þeir eru frekar en að láta tugi kennara lifa í óvissu í einhverjar vikur í viðbót til að svala hégómagirnd ráðherrans?