146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það hljóta allir að sjá að þessi vinnubrögð eru óásættanleg. Við getum ekki frétt svona af því þegar svona mál gerast, bara úr fréttum. Þetta er í rauninni enn ein króna í vantraustsfötuna hjá mér.

En ég vildi víkja aðeins að einu öðru máli til að trufla ekki of mikið. Í gær, um fundarstjórn forseta, var talað um svartíma fyrirspurna. Ég tók mig til og reiknaði þann svartíma. Núverandi þing er í 27 daga svartíma, virkir dagar, og í 17. sæti yfir þau þing sem eru síðust til að svara. Þingið sem var lengst til að svara tók sér 38 daga en það var síðasta þing. 27 dagar þegar viðmiðið á að vera 15 er ekki ásættanlegt. Við þurfum að gera betur. Ég vænti þess að forseti brýni það við ráðherra (Forseti hringir.) og ráðuneytin að svara skýrt og skilmerkilega á tilsettum tíma.