146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:05]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri það sem hér er sagt og langar að upplýsa þingheim um að það verða tveir fundir með Kristjáni Þór Júlíussyni í allsherjar- og menntamálanefnd, annars vegar á morgun og hins vegar á þriðjudaginn. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Tryggja þarf jafnræði nemenda og valfrelsi með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform.“

Auðvitað er ýmislegt til skoðunar þegar ljóst er að fækkun verður um 620 nemendur á höfuðborgarsvæðinu milli 2017 og 2018. Þetta er eitt af því sem ég hef rætt við ráðherra. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram. Auknar fjárveitingar eru nauðsynlegar til að styrkja innviði skólanna og nauðsynlega endurnýjun á aðstöðu þeirra. En vandi skólanna verður ekki aðeins leystur með auknum fjárframlögum, að dæla út peningum, heldur þarf að huga að skipulagningu skólakerfisins til framtíðar. Samvinna (Forseti hringir.) og sameining getur falið í sér aukna hagkvæmni að því er varðar rekstur skóla en getur einnig skilað sér í betri gæðum í kennslu og fjölbreyttara námsframboði fyrir nemendur. (Gripið fram í.)