146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra er hér í húsi. Það er því í rauninni ekkert að vanbúnaði að breyta dagskrá fundarins og láta hæstv. forsætisráðherra koma og tala fyrir stefnu ríkisstjórnar sinnar og svara því hvort það sé í rauninni þannig að það eigi að einkavæða menntakerfið og jafnvel einhverja fleiri þætti í íslensku samfélagi. Ég myndi gjarnan vilja að við tækjum þá umræðu hér og nú, í dag því að það skiptir máli út af fjármálaáætluninni sem við erum að ræða. Eru fleiri atriði sem ekki hafa verið rædd þegar ráðuneytin hafa komið inn á fundi hv. nefnda Alþingis? Það skiptir miklu máli fyrir það hvernig við högum vinnu okkar. Auðvitað ætti hæstv. forseti að (Forseti hringir.) breyta dagskrá fundarins og kalla hæstv. forsætisráðherra hingað inn til þess að svara fyrir stefnu ríkisstjórnar sinnar. Við eigum ekki að þurfa að lesa um hana í fjölmiðlum. Við eigum að ræða pólitíkina hér í þessum sal.