146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég býst við að þingheimur og forseti og þeir sem á þetta mál hlýða hafi skynjað ákallið sem er hér úr salnum. Það er að nauðsynlegt sé að taka umræðu um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í menntamálum, í heilbrigðismálum, en ekki að við hér í salnum notum þennan lið, fundarstjórn forseta, til að reyna að fara í málefnalega umræðu þegar enginn ráðherra er til svara, engin stefnumörkun ráðherra sem við getum rökrætt. En það er líka umhugsunarefni að þegar við stöndum frammi fyrir orðnum hlut eins og einkavæðingu Klíníkurinnar í Ármúla, hinum megin við götuna við Fjölbrautaskólann í Ármúla, kemur hæstv. heilbrigðisráðherra hér í mars og neitar því fjórum sinnum að hann (Forseti hringir.) muni nokkurn tíma leyfa þessar breytingar. Og svo gerast þær. Hér var nefnt hvort þingræðið væri í húfi. (Forseti hringir.) Það er kannski spurning að hér í salnum þurfi að taka umræðu um það líka.