146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek algjörlega undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Ég hlustaði einmitt á þessar ræður hjá honum þar sem hann benti á það hvernig hefur verið skorið niður til opinbers reksturs og erfið staða síðan notuð sem rökstuðningur fyrir því að færa fjármuni eða jafnvel heilan skóla, vel rekinn skóla, til þess væntanlega að styðja við fjölbreytt rekstrarform. Það getur einfaldlega ekki gengið. Við höfum heyrt frá sveitarfélögum hringinn í kringum landið þar sem þau kalla eftir auknum fjármunum inn í framhaldsskólastigið, opinbera framhaldsskólastigið, eftir áralangan erfiðan niðurskurð eftir hrun. Lausnin á því getur ekki verið að færa þessar eignir ríkisins yfir til einkaaðila, það getur ekki verið lausnin. Við getum alveg verið sammála um að það þurfi að vera fjölbreytt rekstrarform en þetta er ekki leiðin að því. Ef Tækniskólinn þarf á stuðningi að halda verður (Forseti hringir.) hann að koma með öðrum hætti.