146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:21]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er ekki bara þessi tilteknu einkavæðingaráform í þetta tiltekna skiptið heldur það að í allri umræðu um fjármálaáætlun höfum við trekk í trekk fengið forsvarsmenn ríkisstofnana til okkar sem segja: Við vitum ekki planið, við vitum ekki hvað ríkisstjórnin hefur í huga. Fólk talar um að það vanti upplýsingar, vanti gögn, vanti gagnsæi, vanti möguleikana á því að sjá hver framtíðin er og eftir hvaða framtíðaráformum ríkisstjórnin ætlar að vinna.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að ríkisstjórnin heldur ítrekað upplýsingum frá þinginu, frá stofnunum sínum, frá almenningi í landinu. Ég veit ekki hversu vel fólk á að venjast því að lesa á milli línanna í fjármálaáætluninni og í öðrum plöggum ríkisstjórnarinnar til að geta séð fyrir sér hvað er í vændum á næstu árum. Ég vil fá allar upplýsingarnar á hreint, alltaf.