146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

málefni Hugarafls.

[11:34]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Stutta svarið við þessu er að fjárveitingar til Hugarafls hafa verið á sviði heilbrigðissviðs ráðuneytisins frá upphafi, að einu ári undanskildu þegar kom bein fjárveiting frá fjárlaganefnd á síðasta ári sem einhverra hluta vegna var eyrnamerkt félagsmálahluta ráðuneytisins. Það var hins vegar sértæk ákvörðun fjárlaganefndar að veita fjárstyrk með beinum hætti til Hugarafls. Þess vegna er það rangt sem haldið hefur verið fram í umræðunni að um einhvers konar niðurskurð hafi verið að ræða af hálfu félagsmálahluta ráðuneytisins. Þjónusta Hugarafls hefur einfaldlega verið flokkuð með annarri heilbrigðisþjónustu og þar af leiðandi styrkt af hálfu heilbrigðisráðherra.

Það er auðvitað mikilvægt í svona viðamiklu ráðuneyti að þar sé yfirsýn og skýr stefna um það hvar viðkomandi málaflokkar eiga heima. Það er vissulega þannig innan míns ráðuneytis að þar getur verið mjög mikil skörun á milli málaflokka og náskyld starfsemi þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, þegar kemur að ýmsum öðrum úrræðum sem geta verið forvirk úrræði. Þess vegna er mjög mikilvægt að ráðuneytið greini innbyrðis hvar hlutirnir eiga heima þannig að það sé skýrt og að skýr svör séu veitt viðkomandi hagsmunasamtökum. Það sé líka skýrt með hvaða hætti stutt sé við starfsemi þeirra og hver geri það þannig að hvor hluti ráðuneytisins fyrir sig geti einbeitt sér vel að starfsemi sinni.

Það er sjálfsagt að eiga fundi með Hugarafli. Við höfum svarað þeim skýrt með þessum hætti, að hér eftir sem hingað til hafi þjónusta þeirra verið flokkuð undir heilbrigðishluta ráðuneytisins. Þar af leiðandi sé eðlilegast að þau leiti fyrst og fremst þangað eftir stuðningi. En ég tel það alls ekki eftir mér að eiga fundi með Hugarafli. Við höfum rætt þetta mál ítrekað innan ráðuneytisins og milli okkar og heilbrigðisráðuneytisins.