146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

málefni Hugarafls.

[11:37]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns um að starfsemi samtaka á borð við Hugarafl og svo margra annarra slíkra sjálfboðasamtaka sem starfa í samfélagi okkar á hinum ýmsu sviðum velferðarmála skipta alveg gríðarlega miklu mál. Þar er verið að vinna gríðarlega gott og óeigingjarnt starf á svo mörgum sviðum, sem skiptir ofboðslega miklu máli fyrir samfélagið, ekki bara í þjónustu við viðkomandi hópa, heldur ekki síður í aðhaldi gagnvart stjórnvöldum og fyrir þróun okkar lýðræðislega samfélagi.

Ég styð því heils hugar alla slíka starfsemi en mér finnst um leið afar brýnt að stjórnsýslan sé mjög skýr um það hvert svona samtök eigi að leita eftir bæði fjárhagslegum og faglegum stuðningi. Þess vegna (Gripið fram í.) hefur það verið skýrt af hálfu ráðuneytisins að þetta heyri undir heilbrigðisþjónustu, það sé þeirra fyrsti viðkomustaður. En ég ítreka að það er alveg sjálfsagt af minni hálfu að hitta þau, þó það nú væri.