146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

nefnd um endurskoðun búvörusamninga.

[11:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Á fyrstu dögum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í embætti breytti ráðherra þeim hópi sem á að endurskoða búvörusamninga, samráðshópnum, setti inn sína pólitísku trúnaðarmenn en einnig, sem var áhugavert, fulltrúa stórkaupmanna sem að sögn ráðherra væri með sýn neytenda. Það er og.

Ráðherra ákvað líka að setja á netið til umsagnar frumvarp um gjörbyltingu á samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins sem og tollaumhverfi. Með öðrum orðum ákvað ráðherra að taka út úr endurskoðunarferlinu ákveðna þætti, taka frá samráðsnefndinni, hópnum, verkefni, þó svo að að á síðasta kjörtímabili hafi þáverandi formaður atvinnuveganefndar og nefndin öll og þingið, þáverandi formaður, núverandi samgönguráðherra og fyrrum samflokksmaður ráðherra, haft forgöngu um sátt þar sem allir þessir hlutir áttu að skoðast í samhengi í nefnd um endurskoðun búvörusamninga fyrir árið 2019, samráðsnefndinni. Um er að ræða umtalsverða breytingu sem ráðherra segir að m.a. sé sótt fyrirmynd að til Noregs. Mér er kunnugt um að sú ferð standi yfir, hafi verið skipulögð af samvinnufélagi bænda og að fulltrúum ráðherra hafi verið boðið í þá ferð. Þeir eru ekki með, að mér skilst.

Því spyr ég eftirfarandi spurninga: Er það virkilega svo að ráðherra hafi neitað að senda fulltrúa í þessa ferð til að kynna sér málin í grunn og botn? Eru þetta hin nýju vinnubrögð nýrrar ríkisstjórnar, aukið samráð, samvinna og sátt? Er þetta minna fúsk eða eru þetta allt saman frasar? Finnst ráðherra ekki lágmark að fulltrúar hennar kynni sér málin á sama hátt og aðrir fulltrúar í nefndinni? Mér finnst hæstv. ráðherra ganga um þessi alvarlegu mál, sem varða heila atvinnugrein og heilar byggðir í landinu, af nokkurri léttúð, jafnvel eins og fíll í postulínsbúð.