146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

varaformennska utanríkisráðherra í samtökum hægri flokka.

[11:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni ef hún leggur áherslu á að berjast gegn öfgastefnum alveg sama hverjar þær eru, sem ég tel að hún geri alla jafna. Við berjumst fyrir mannréttindum hvar sem við getum gert það. Það hefur sá sem hér stendur gert og mun halda áfram að gera það.

Hvað varðar setu mína í þessari stjórn þá mun ég ekki vera þar áfram. En aðalatriði málsins er þetta: Ef hv. þingmaður hefði viljað hefði hún getað talað við marga aðra flokka í Evrópu sem við erum í samstarfi við, flokkagrúppur sem aðrir íslenskir þingflokkar eru aðilar að, en því að miður er langur vegur frá því að mál — hv. þingmaður nefndi sum mál, en það eru mörg önnur sem ég held að sé góð pólitísk samstaða um á vettvangi Alþingis — séu eins og við Íslendingar viljum almennt sjá þau í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er okkar hlutverk alls staðar að berjast fyrir þeim gildum sem hv. þingmaður minntist á. Það er nokkuð sem ég hef gert sem þingmaður, áður en ég kom á þing, og sem ráðherra. Og ég mun halda áfram að gera það.

En ég held að það væri mjög hollt ef hv. þingmenn myndu aðeins kynna sér stöðuna á þessum málum almennt í þeim löndum sem við eigum mikil samskipti við. Það er fyrsta niðurstaðan sem við komumst að þegar við skoðum málin að þar er mjög mikið verk að vinna.