146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

varaformennska utanríkisráðherra í samtökum hægri flokka.

[11:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef gagnrýnt stjórnvöld í Tyrklandi, bæði á vettvangi þeirra samtaka sem hv. þingmaður vísaði til og á öðrum vettvangi. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér málin og ekki vera að útmála öll þau samtök sem ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn er í heldur önnur þau samtök sem aðrir flokkar eru í, þau byggja á gildum sem við erum sammála um. Síðan er það hins vegar því miður þannig að þetta er ansi brothætt. Ef maður fengi að ráða öllu myndi maður breyta mjög mörgu í stefnu flokka sem hv. þingmaður vísaði til, en svo sannarlega margra fleiri. Þannig er ástandið í Evrópu og ástandið í Evrópu er þó betra en í flestum þeim löndum og heimsálfum sem eru á jörðinni. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Það er algerlega fráleitt að leggja þetta mál upp með þessum hætti. Ég hvet hv. þingmann til að skoða aðrar flokkagrúppur á Evrópuþinginu. Þessi flokkagrúppa er almennt ekki lögð út á þann hátt, (Forseti hringir.) frekar en aðrar stórar flokkagrúppur, sem hv. þingmaður gerir. Hins vegar er mjög mikið verk að vinna þegar að þessu kemur.