146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[12:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað sérstaklega til að hvetja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til að huga enn frekar að því hvernig einstaklingar sem telja að fjármálafyrirtæki hafi brotið á sér geti fengið aukinn stuðning við að leita réttar síns. Það kom ítrekað upp í framhaldi af hruninu í hversu veikri stöðu einstaklingar voru gagnvart fjármálafyrirtækjunum. Það leiddi jafnvel til þess að fólk missti eigur sínar og þurfti að standa í margra ára lagaferli til að fá leiðréttingu sinna mála. Ég hef í ræðum bent á ákveðnar fyrirmyndir, t.d. frá Bandaríkjunum, um sérstaka fjármálaneytendastofu sem hefði eftirlit með þessum stærstu ákvörðunum sem einstaklingar taka þegar kemur að því að taka lán og geta haft gífurlegar afleiðingar. (Forseti hringir.) Hingað til hefur þetta lagaumhverfi verið óljóst og það er mjög brýnt að tekið verði á því.