146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[12:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða mjög gott mál sem styrkir stöðu þeirra sem eru að reyna að koma á framfæri upplýsingum um ætluð brot innan fjármálageirans eða þess háttar. Þó eru frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar breytingartillögur sem ganga hreinlega gegn tilgangi þessa frumvarps vegna þess að frumvarpið byggir á Evróputilskipun sem gengur út á að verja nafnleynd og öryggi þeirra sem reyna að koma upplýsingum á framfæri. Því eru óheppilegar og jafnvel rangar breytingartillögurnar sem ganga út á að það sé ekki nauðsynlegt að mögulegt sé að koma upplýsingum nafnlaust á framfæri. Við Píratar munum greiða atkvæði gegn breytingartillögunum en fagna þessu góða frumvarpi að öðru leyti og ég hvet aðra til að gera hið sama.