146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[12:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel núverandi stjórnarskrá ágæta þótt sannarlega sé ástæða til að bæta við nýjum ákvæðum. Það væri gott að fá inn ákvæði sem snýr að því að þjóðin gæti komið að svona afgreiðslu. Hér er hins vegar verið að leita lausna svo við getum verið þátttakendur í mjög mikilvægu, nýju eftirlitskerfi með fjármálamarkaðnum. Ég tel rétt að styðja þetta mál, ekki hvað síst þar sem við erum enn að fá verulegar athugasemdir við það fjármálaeftirlit sem við erum með á Íslandi.

Ég vil líka fá að nefna að það er verulegt áhyggjuefni að við séum enn á ný farin að heyra auglýsingar frá fjármálafyrirtækjum um 90% húsnæðislán og að við séum ekki farin að heyra af reglum sem fjármálaráðherra ætti að huga að sem ættu að snúa að því að ramma af lánveitingar, ekki hvað síst til ungs fólks.