146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við Framsóknarmenn styðjum þetta mál, teljum það gott skref í rétta átt. Þarna eru þó tvö álitaefni, annars vegar er varðar flutninga á fólki þar sem verið er að nota smærri bíla og gæti hugsanlega varðað samkeppni við hefðbundinn leigubílaakstur, en í trausti þess að nefndin hafi farið vel yfir þetta og sett skýr skilyrði treystum við því að ekki sé gengið um of á rétt leigubílstjóra og leigubifreiða.

Hitt atriðið varðar almenningssamgöngur til og frá flugstöðinni í Keflavík, Leifsstöð. Við sem ferðumst til útlanda vitum vel að við getum nýtt almenningssamgöngur frá öllum flugvöllum, við getum líka nýtt rútubíla, lestir og ýmislegt fleira en það er með ólíkindum að sú staða skuli vera uppi sem uppi er, að almenningssamgöngum sé meinað að leggja að (Forseti hringir.) Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna þess að rútubílafyrirtæki fái þar forgang umfram strætó. Það er með ólíkindum. Ég treysti því að úr því að nefndin ætlar að kalla málið inn fari hún einnig yfir það.