146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þótt ég vildi gjarnan halda þessu tali hér áfram sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson og hæstv. ráðherra Guðlaugur H. Þórðarson standa í, þá ætla ég að beina sjónum mínum annað í bili. Það er Brexit.

Ég spyr hæstv. ráðherra, sem er ötull talsmaður fríverslunar, hann þekkir tvíhliða samninga, tveggja spurninga hér í fyrri umferð: Hefur hæstv. ráðherra einhver sérstök vilyrði Breta fyrir því að Ísland verði framarlega í röðinni þegar kemur að samningum við önnur ríki? Eins og við vitum verða menn þar á bæ væntanlega uppteknir næstu mánuði og ár.

Í annan stað langar mig að vita, vegna þess að fram koma í skýrslunni væntingar um að semja megi um enn betri markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning við Bretland, einkum fyrir sjávarafurðir: Telur ráðherra að unnt verði að semja um markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir án gagnkvæmni? Um er að ræða tvíhliða samninga þar sem hagsmunir beggja hljóta að vera uppi á borðinu. Er mögulegt að hér sé verið að ræða um að af hálfu Breta þurfi að koma krafa um gagnkvæmni, t.d. markaðsaðgang (Forseti hringir.) fyrir breskar landbúnaðarafurðir á Íslandi?