146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að allir þeir sem fá að nálgast íslenskar sjávarafurðir eru öfundsverðir, en ég hef samt einhvern veginn á tilfinningunni að Bretar muni leggja meiri áherslu á annað en útflutning á sjávarafurðum til Íslands í tvíhliða samningum.

Spurningin er þessi: Er hæstv. ráðherra kunnugt um afstöðu annarra EFTA-ríkja til hugsanlegrar aðildar Bretlands að EFTA? Samkvæmt EFTA-samningi þarf að ríkja eining um inngöngu nýrra ríkja, þannig að ég hefði áhuga á að vita það, sérstaklega afstöðu Norðmanna.

Síðan velti ég fyrir mér í sambandi við þá vinnu við að ná tvíhliða samningum við Bretana, ekki bara fríverslun heldur að einhverju leyti um frjálsa för og staðfesturétt fyrirtækja o.s.frv., eins og stefnt er að í utanríkisráðuneytinu. Hefur farið þar fram greining á því hvaða áhrif það hefði á aðra fríverslunarsamninga sem núna eru í gildi (Forseti hringir.) í ljósi ákvæða um að tryggja bestu skilyrði ávallt o.s.frv.? Er þessi vinna farin í gang við að skoða það hvaða áhrif það hefði, ekki eingöngu á þennan samning eða samskipti þessara tveggja ríkja heldur ríkja sem við eigum núna þegar tvíhliða samninga við?