146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég get nú farið betur í þetta í seinni ræðu minni. Áður en ég varð ráðherra kom ég með þá hugmynd að Bretar yrðu aðilar að EFTA. Í því felast augljósir kostir fyrir EFTA-ríkin og fyrir Breta sömuleiðis. Þá er ég að tala um EFTA, ekki EES. Þetta er ekki komið á þann stað, til eða frá. Ég myndi ætla, nema EFTA-ríkin hafi eitthvað sveigt frá áherslum sínum, að það væri erfitt ef Bretar hefðu áhuga á að koma inn að finna málefnaleg rök gegn því. En þetta er ekki komið á þann stað að við séum að ræða þessa hluti með þeim hætti.

Nú erum við ekkert byrjaðir að semja, svo það sé bara sagt. Hv. þingmaður var hins vegar að velta þessu fyrir sér almennt varðandi mat og nefndi gagnkvæm réttindi borgaranna. Fljótt á litið er erfitt að sjá að það gæti verið eitthvað sem myndi standa í veg fyrir því. Þegar við erum að vinna að Brexit-málum gerum við það í stærra samhengi vegna þess að við þurfum að meta hagsmuni okkar. Ég get komið betur að því á eftir, (Forseti hringir.) ég náði því ekki í ræðu minni áðan. En mér finnst vanta svolítið á að við vinnum þá heimavinnu jafn vel og við ættum að gera. (Forseti hringir.) Í raun tengist þetta allt saman. Ég fer yfir það á eftir.