146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kom í framsögu sinni talsvert inn á öryggis- og varnarmál. Mig langar í því tilefni, vegna þess að ráðherrann fór ekki beinlínis inn í texta skýrslunnar, að spyrja út í þann texta sem er á blaðsíðu 52. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og þá sérstaklega í Sýrlandi heldur áfram að valda verulegum áhyggjum. Öryggisáskorunum til suðurs er mætt með bættu eftirliti, samstarfi við Evrópusambandið og stuðningi við umbætur í öryggis- og varnarmálum.“

Einnig er talað um aukna áherslu á samstarf bandalagsins, m.a. um Flóaríkin. Þetta er í kaflanum sem fjallar um Atlantshafsbandalagið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta: Er það sýn hæstv. ráðherra að það sé öryggisáskorun að halda flóttamönnum úti, flóttamönnum frá stríðshrjáðum löndum? Því það er dálítið það sem ég les út úr (Forseti hringir.) þessum texta og þá eins, vegna þess að þar er talað um Flóaríkin, hvort við séum þá að taka undir stefnu Sádi-Arabíu sem rekur stríð í Jemen þar sem milljónir manna svelta. Mér finnst þessi setning þarna þarfnast nánari útskýringa í þessari umræðu.