146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað skiptir það máli hvaða afstöðu Ísland tekur og hvernig Ísland talar á alþjóðavettvangi og hvaða áherslur Ísland leggur, til að mynda varðandi það stríð sem Sádi-Arabar heyja í Jemen. Auðvitað skiptir það máli inn í það samstarf, vegna þess að við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu, hvernig við tölum þar. Auðvitað valda öll stríð öryggisáskorunum alls staðar. En ég get ekki betur séð hér en að í raun sé verið að tala um flóttamenn sem öryggisáskorun. Ég myndi mjög gjarnan vilja heyra það skýrt frá hæstv. ráðherra hvort hann telji flóttamenn vera öryggisáskorun fyrir okkur, eða hvort vinna þurfi gegn stríðum og tryggja þannig öryggi okkar. Þá tengi ég það aftur við að það skiptir máli hvort við ætlum að taka (Forseti hringir.) undir eða tala fyrir samstarfi við ríki sem reka stríð í fjarlægum heimshlutum.