146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir efnismikla og góða skýrslu. Ég ætla í spurningum mínum að færa mig aðeins nær, til frænda okkar í Færeyjum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í Hoyvíkursamninginn. Ég sé það í skýrslunni á bls. 38 að á fundi utanríkisráðherra Færeyja og Grænlands síðastliðið sumar var ákveðið að setja á fót vinnuhóp embættismanna til að vinna að tillögum um samstarfsamninginn milli landanna þriggja og kanna möguleika á gerð fríverslunarsamnings í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015. Heyrst hefur að Færeyingar séu ekki fullkomlega sáttir við Hoyvíkursamninginn. Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur aðeins um af hverju það stafar. Telur ráðherra einhverja möguleika á því að Grænlendingar myndu vilja koma inn í þennan samning? Með hvaða hætti getum við treyst enn frekar viðskipti okkar við þessar góðu grannþjóðir okkar?