146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður kemur að mjög mikilvægu máli. Við megum ekki gleyma að efla og rækta tengslin við þessar þjóðir sem standa okkur næst, bæði landfræðilega og á ýmsum öðrum forsendum. Í stuttu máli erum við að gera allt sem við getum til þess að efla það enn frekar.

Ég veit ekki hvort ég næ að fara efnislega yfir það í þessu stutta andsvari hvað Færeyingar hafa gert athugasemdir við, eða varðandi stöðu Grænlands. Aðalatriðið er að vilji okkar er skýr. Við viljum þétta raðirnar enn frekar, efla samskiptin enn frekar. Viðskipti eru eitt, en það þarf ekki síður að efla samskiptin á menningarsviðinu og hvað varðar atvinnuvegi. Ferðamennska er augljóst dæmi. Því meiri samskipti milli okkar og þessara vinaþjóða okkar, því betra og að því vinnum við.