146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að taka því þannig að hv. þingmaður hafi ekki haft tækifæri til að hlusta á alla ræðuna mína og andsvörin, því að mikið af því sem hér kom fram var það sem ég var að ræða nákvæmlega þar, sérstaklega varðandi Brexit. Allt það sem hv. þingmaður nefndi þar var farið yfir í andsvörum, ég get alveg farið yfir það aftur.

Varðandi það að ekki sé skipt varðandi málaflokka þá veit ég að hv. þingmaður, sem á sæti í hv. utanríkismálanefnd, var ekki á fundi þegar farið var sérstaklega yfir það. Til upplýsinga um það þá fer hlutfall, af því hv. þingmaður talar mikið um þróunarsamvinnu, árið 2017 úr 35% af útgjöldum málaflokksins í 39% samkvæmt fjármálaáætlun, en hins vegar er það alveg rétt að við erum að leggja þessa fjármálaáætlun fram í fyrsta skipti. Hún á hins vegar að leggja grófu línurnar, vera stóra áætlunin, og ekki er sanngjarnt að fara fram á að menn fari niður á aðra þætti eins og um fjárlög væri að ræða.

Aðeins varðandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG. Ekki aðeins, og það var skiljanlegt við þessar erfiðu aðstæður, lækkaði sú ríkisstjórn framlögin í krónum talið til þróunaraðstoðar heldur líka hlutfallslega. Fór það þá niður í 0,2% og hefur aldrei miðað við undanfarin ár verið lægra. Það var því ekki bara í krónutölu sem það lækkaði heldur líka hlutfallið, svo að því sé haldið til haga.

Hér var enginn að tala um að viðskiptavæða þróunaraðstoð. Það sem menn eru að vísa í eru heimsmarkmiðin. Við hljótum að vera sammála um að við ætlum að fylgja þeim eftir. Þar er bent á að við náum ekki heimsmarkmiðunum nema meira komi til en eingöngu opinbert fé. Það er það sem aðrar þjóðir eru að gera. Við erum bara að bera okkur saman við Norðurlöndin. Ef menn vilja að við förum allt aðra leið en Norðurlöndin þá eiga menn bara að segja það. Ég hef talið að góð sátt væri um að við myndum læra af Norðurlöndunum þegar kemur að ýmsum málaflokkum, m.a. þróunarsamvinnunni.

Þetta snýr ekki bara að Brexit, vinna varðandi utanríkisviðskipti. Við erum að ræða þetta í miklu stærra samhengi. Allt það sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) nefndi hef ég nefnt sem áhersluatriði hvað varðar Bretland. Eðli máls samkvæmt get ég ekki upplýst núna, vegna þess að það er ekki komið af stað, hvernig (Forseti hringir.) niðurstöður samninga verða vegna þess að samningarnir eru ekki byrjaðir.