146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:59]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra til hægðarauka get ég upplýst að ég hlustaði mjög vel og grannt á hans mál og hans andsvör hér. Ég hef mikla samúð með því líka hvernig staðan er í Brexit í Bretlandi. Það er heldur betur kaos heima fyrir hjá bresku ríkisstjórninni.

Aðeins varðandi þessa stefnubreytingu um einkafyrirtæki og atvinnulífið í tengslum við þróunarsamvinnuna. Það stendur á bls. 7 í skýrslu hæstv. ráðherra að mikil þörf sé á því að skoða alla möguleika á samvinnu við einkafyrirtæki og atvinnulífið um þróunarverkefni þar sem það er hægt. Ljóst er að opinbert fjármagn nægir ekki til að ná heimsmörkuðum. Einkafjármagn þarf til. Þarna er um stefnubreytingu að ræða sem ég bað um útskýringar á og hæstv. utanríkisráðherra var hreinlega að reyna að þvo hendur sínar af hér ef mér skjöplaðist ekki. (Utanrrh.: Nei.)

Varðandi framlög til þróunarmála í tíð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar í ríkisstjórn bendir hæstv. utanríkisráðherra á að framlög hafi hlutfallslega séð lækkað. Hvers vegna var það, hæstv. utanríkisráðherra? Vegna þess að hér varð efnahagshrun 2008 og niðurskurður á öllum sviðum samfélagsins. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar setti sér metnaðarfull markmið um að gefa í með myndarlegri hætti en sú ríkisstjórn sem situr að völdum í dag gerði og líka fráfarandi ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn átti sæti í. Ég frábið mér að verið sé að tala hér eins og við búum við sömu efnahagsaðstæður í dag og rétt eftir hrun. Markmið og hin pólitíska stefna er hins vegar allt önnur. Allt önnur. Það má lesa hér í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.