146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:06]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er gaman og gott að fá að koma hingað og ræða skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð hefur verið fyrir Alþingi. Það verður að segjast eins og er að þegar ég las yfir innganginn þar sem segir að gengið sé út frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, átti ég ekki von á miklu, enda er sú fjármálaáætlun tiltölulega rýr þegar kemur að útlistun á árangri og því sem verið hefur að gerast í utanríkismálum fyrir hönd Íslands. Þar eru dálkarnir fleiri þar sem skilað er auðu, þar sem hlutirnir eru ekki mælanlegir, sem er kannski vel skiljanlegt, enda eru utanríkismál kannski illmælanleg. Það væri kannski hægt að finna eitthvað út úr því, m.a. með því að athuga hvernig vinir okkar annars staðar á Norðurlöndum mæla sömu þætti.

Að efninu. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu frekar en þörf krefur. Mig langar til þess að ræða utanríkisþjónustuna og það góða starf sem utanríkisþjónustan hefur verið að sinna. Ég er sérstaklega ánægð með borgaraþjónustuna. Það er mjög gott framtak sem þarf virkilega að auglýsa og kynna betur. Þar er ég mjög sammála skýrslu hæstv. utanríkisráðherra varðandi það að betur þurfi að virkja upplýsingamiðilinn og upplýsa fólk um stöðu og tilgang borgaraþjónustunnar í utanríkisráðuneytinu.

Hins vegar eru nokkur atriði varðandi utanríkisþjónustuna sem er tiltölulega illa svarað eða ósvarað, sér í lagi ef maður skoðar það í samhengi við fjármálaáætlunina. Á bls. 44 í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu. Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum.“

Það er gott og blessað og frábært.

Það sem stingur í augu, sér í lagi þegar við förum yfir fjármálaáætlunina, og ég sé ekki fram á að skýrslan sem við fjöllum um hérna segi aðra sögu, er að utanríkisþjónustan var skorin inn að beini eftir hrun, eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi í máli sínu áðan. Því miður var þjóðhagslega staðan þess eðlis að það þurfti að fara í mjög harðan niðurskurð og það bitnaði einna helst, ef ekki mest á utanríkisstarfinu og utanríkisþjónustunni. Talað er um að skorið hafi verið niður um allt að 30% í utanríkisþjónustunni. Það hefur ekki verið byggt aftur upp af sama krafti. Það er svolítið sem ég sakna í þessari skýrslu ef þetta á að veita einhverja framtíðarsýn, og eins varðandi fjármálaáætlunina. Af því að hæstv. utanríkisráðherra var nú ekki viðstaddur þegar við ræddum sjálfa fjármálaáætlunina heldur staðgengill hans, er kannski allt í lagi að ég fari aðeins út í þá sálma.

Ég sakna framtíðarsýnar þegar kemur að því að byggja aftur upp utanríkisþjónustuna, sér í lagi til þess að geta framfylgt markmiðum ríkisstjórnarinnar, sem eru nú góð og gild, einkum þegar kemur að Evrópusambandinu og úrsögn Breta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld sinni vel hagsmunagæslu í EES-samstarfinu og standist þær kröfur sem af EES-samningnum leiða.“

Þegar kemur að EES-samningnum eru það alla vega góðar fréttir að innleiðingarhallinn hefur verið að minnka, eins og fram kemur í skýrslunni. Hann var orðinn mjög hár á tímabili, en við höfum gert smá skurk í því í samstarfi við hin ýmsu ráðuneyti og Alþingi og við nefndasvið Alþingis, en það er annað sem alltaf hefur komið upp í umræðum, það er að við þurfum að geta brugðist við fyrr í ferlinu. EES, Evrópska efnahagssvæðið, og Evrópusambandið eru í raun og veru ein af okkar lykilsvæðum. Alveg sama hvað hæstv. ráðherra finnst um það hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki þá er það einfaldlega þannig að við þurfum að sinna betur hagsmunagæslunni þar. Samkvæmt því sem ég hef náð að kynna mér um starf Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins og innan Evrópusambandsins eru sendiráðsstarfsmenn í sendiráðinu í Brussel 13 talsins.

Það er rétt sem fram kemur í skýrslunni að Ísland er með litla utanríkisþjónustu. Það er kannski eðlilegt í ljósi þess að Ísland er lítið land, við erum fámenn þjóð — en 13 starfsmenn. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk af vefsíðu sendiráðsins, eru fjórir starfsmenn annaðhvort með einhverja faglega hópa eða verkefnasvið sem snúa að Evrópusambandinu, og af þessum fjórum er einn sem snýr að EES.

Ef við berum það saman við Noreg, sem er í svipaðri stöðu og við, að vísu betur statt og að vísu nokkuð fjölmennara land, þá eru tvö norsk sendiráð í Brussel, annars vegar það sem snýr að Belgíu og hins vegar það sem snýr að Evrópusambandinu. Þar af eru sjö sem sinna einungis hefðbundnu starfi á sendiráðsskrifstofu fyrir Belgíu og 52 starfsmenn sem sinna hagsmunagæslu Noregs gagnvart Evrópusambandinu. Ég er ekki að segja að við þurfum að fara upp í 52, en við þurfum alla vega einn starfsmann á hvert málefnasvið inn í sendiráðið.

Það sem ég sakna bæði í fjármálaáætlun, sem er náttúrlega ekki umræðuefnið hér en er það þó samt, og í þessari skýrslu þegar kemur að framtíðarsýninni er að það er engin framtíðarsýn um að byggja upp á þessu sviði. Það er ekki framtíðarsýn um að reyna að fá fulltrúa frá öðrum fagráðuneytum til þess að vera með hagsmunagæslu í Brussel. Það voru þau stöðugildi sem losað var um í kjölfar hrunsins.

Núna erum við einfaldlega komin á þann stað að við þurfum að fara að efla þetta starf, við þurfum að fara að senda starfsmenn ráðuneyta til Brussel til þess að vera með virka hagsmunagæslu. Það er bara kominn tími til. Það er ekkert hér sem ég rek augun í sem bendir til þess að auka eigi við þetta, en kannski yfirsést mér eitthvað. Brussel-skrifstofan er mögulega ein sú mikilvægasta sem við erum með, við innleiðum þær reglugerðir sem koma þaðan. Við sinnum ekki hagsmunagæslunni þar nógu vel þó að þar sé vissulega unnið mjög gott starf.

Að sama skapi hefur mér borist til eyrna að einn sendiráðsstarfsmaður verði færður til til London til þess að fylgjast með stöðu okkar gagnvart Brexit.

Mig langar til þess að brýna hæstv. utanríkisráðherra í því að sjá til þess að þarna verði nýtt stöðugildi en að ekki verði tilfærsla sem muni leiða til þess að Brussel-sendiráðið missi starfsmann. Það er alveg nauðsynlegt að við höldum þessum starfsmönnum, því að hér er um að ræða mjög litla skrifstofu sem sinnir gríðarlega mikilvægu verkefni, gríðarlega mikilvægri hagsmunagæslu fyrir Ísland. Það munar um hvert einasta handtak.

Varðandi Brexit þá er ég mjög hlynnt því að Íslendingar fari sérstaklega til Bretlands, auki viðveru sína í London út af okkar sérstöku hagsmunum þar, bæði varðandi útflutning og innflutning frá Bretlandi sem og menningarleg tengsl og fleira þar fram eftir götunum sem ég þarf ábyggilega ekki að tíunda.

Hins vegar rakst ég á mjög einkennilega setningu á bls. 32, með leyfi forseta:

„Þótt Bretar hafi hafnað aðild að innri markaðnum og þar með gefið EES-lausn upp á bátinn er ekki loku fyrir það skotið að það geti hentað breskum hagsmunum að sækjast eftir EFTA-aðild vegna þess ramma sem þar er gefinn til að halda utan um fríverslunarsamninga víða um lönd.“

Þegar ég ræddi við formann utanríkismálanefndar Bretlands nú á dögunum virtist ekkert benda til þess að búið væri að gefa EES-lausn endanlega upp á bátinn þannig lagað séð. Þannig að ég er ekki alveg sammála þeirri túlkun sem hér er af því að það virðist vera að þeir vilji fá ákveðin innri markað en vilji ekki fá frjálst flæði fólks og vinnuafls, sem virðist vera vandinn í þessu öllu saman. Ég skil ekki alveg hvaðan þessi setning kemur. Þótt Bretar hafi hafnað aðild að Evrópusambandinu finnst mér ekki eins og þeir hafi hafnað aðild að því fyrirkomulagi sem við erum með. Það eru alla vega ekki þau skilaboð sem ég hef fengið í gegnum mínar rásir. Það kann að vera einhver misskilningur, annaðhvort hjá mér eða í þessum texta. Kannski les ég eitthvað öðruvísi í þetta.

Þrátt fyrir að maður haldi alltaf að korter sé mjög langur tími til þess að koma sínum skoðunum á framfæri þá er það ekki svo. Svo ég haldi áfram með utanríkisþjónustuna, og ég vil beina því sérstaklega til utanríkisráðherra, þá er það rétt sem stendur á bls 29 varðandi sendiráðið í Kaupmannahöfn, 10.000 Íslendingar búa í Danmörku og sinnir sendiráðið gríðarlega mikilvægu starfi. Þetta sendiráð þarf líka að styrkja. Við þurfum að fara að endurskoða hvar við erum með sendiskrifstofur. Fyrst ég er hef tækifæri til að segja það hér þá væri flott að sjá einhverja framtíðarsýn varðandi Pólland. Um það bil 1% þjóðarinnar er af pólskum uppruna. U.þ.b. 2% af þeim sem eru á vinnumarkaðnum eru pólsk, 6.000–10.000 manns á hverjum tíma. Það er mikilvægt að við styrkjum tengsl þessara landa. Það er framtíðarsýn sem ég hefði einnig viljað koma að í utanríkis- og alþjóðastarfi.

Ég ætla rétt í lokin að ræða um þróunarsamvinnuna. Ég verð að taka undir með hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur varðandi þann stóra hlut sem fer í flóttamanna- og hælisleitendur. Ef ég man rétt var einungis hægt að telja það til þróunarsamvinnu fyrsta eina og hálfa árið, eitthvað svoleiðis. Ef flóttamönnum og hælisleitendum fækkar, hvernig mun framlagið þá skiptast? Ég held að mikilvægt sé að pæla aðeins í því og eins að setja sér það markmið að vinna að því að hækka framlögin sem við setjum í þróunarsamvinnu. Það eru þau markmið sem sett eru hjá Sameinuðu þjóðunum um það að þróuð iðnríki skuli leggja fram 0,7% af vergri landsframleiðslu, minnir mig, en við leggjum einungis fram 0,26, sem er náttúrlega töluvert minna. Mér er sérlega minnisstæð sú brýning sem fram kom í umsögn Rauða kross Íslands varðandi nákvæmlega þetta, að Ísland hefur verið þiggjandi þróunaraðstoðar. Þetta er líka spurning um að gefa til baka til samfélagsins. Þetta er kannski meira brýning til hæstv. ráðherra um að gera meira. Varðandi flóttamenn og hælisleitendur þá vil ég fá að vita hvort það er tímabundið og hvort það er markmið okkar í þróunarsamvinnu að taka á móti svona mörgum flóttamönnum, að það sé okkar framlag, ekki annað.

Mig langar til þess að þakka fyrir þessa skýrslu. Það var mjög margt áhugavert þar. Ræða mín snerist að mestu leyti um utanríkisþjónustu okkar. Ég náði ekki einu sinni að koma inn á utanríkisþjónustuna í Washington, sem ég tel að við þurfum einnig að styrkja í ljósi þeirrar þróunar sem er í gangi í Bandaríkjunum með tilkomu Trumps sem forseta. Það þarf að styrkja sendiráðin. Það þarf að styrkja utanríkisþjónustuna. Hæstv. utanríkisráðherra þarf að leggja metnað sinn í það verkefni. Það þarf að styrkja utanríkisþjónustu í London. Utanríkisþjónustan í Brussel þarf aukinn mannafla, Washington sömuleiðis, og síðast en ekki síst Kaupmannahöfn. Við þurfum líka að fara að horfa til annarra landa þar sem við erum með mikil menningarleg og viðskiptaleg tengsl þótt þau séu kannski ekki hægt að meta í krónum á sama hátt og t.d. Kína eða London.

Ég ætla að láta þetta gott heita í bili.