146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir prýðilega ræðu þar sem hún fór málefnalega yfir ýmislegt sem hér kemur fram. Ég ætla að reyna að fara aðeins yfir eitthvað af því sem hv. þingmaður spurði mig um. Fyrst aðeins, af því ég komst ekki í það áðan, um þróunarsamvinnuna. Við förum eins og aðrar þjóðir eftir þeim stöðlum sem eru frá OECD. Þetta er ekki alltaf allt saman gert í þróunarríkjunum. Við höfum gert það frá 1979, t.d. höfum við verið með Jarðhitaskóla Sameinuðu skólanna á Íslandi sem einn part af okkar þróunaraðstoð og hann nýtist mjög vel í þróunaraðstoð. Við styðjum sömuleiðis Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og ýmislegt og þetta er bara eftir ákveðnum reglum.

Eitt af því snýr að flóttamönnum. Við fundum þetta ekki upp, en það vita allir að þegar maður er með 65 milljónir manna á flótta, sem samsvarar íbúafjölda alls Bretlands, hafa aldrei verið fleiri en gætu því miður orðið fleiri, þurfum við að bregðast við því. Það fjármagn sem við setjum þar inn er bara reiknað upp eins og hjá öðrum þjóðum. Við fundum ekki upp þessa staðla.

Það er áhugavert sem hv. þingmaður sagði um Pólland. Margir eru ekki meðvitaðir um þessi miklu samskipti Pólverja og Íslendinga og hvað hópur Pólverja er orðinn stór hér á landi og hefur gengið mjög vel að aðlagast. Við skulum ekki gleyma því að Pólland hjálpaði okkur líka mikið eftir efnahagshrunið.

Ég veit ekki með Breta og EES. Ég var í viðtali á Sky um daginn hjá einum aðalfréttamanninum þar og allt viðtalið fór í að reyna að útskýra muninn á EES og EFTA. Þetta á allt eftir að koma í ljós. Við erum að meta stöðuna varðandi það hvernig við getum nýtt fjármunina sem best af því að hv. þingmaður var að tala um Brussel og EES. Það sem við leggjum til grundvallar núna, ég get farið í það í seinna andsvari mínu, af því að þetta er gríðarlega mikilvægt sem hv. þingmaður lagði upp með, er í rauninni niðurstaða skýrslu sem var samin 2007 undir forystu Björns Bjarnasonar. Ef ég man rétt komst hv. þm. Katrín Jakobsdóttir þar að niðurstöðu um hvernig væri best að vinna þetta. (Forseti hringir.) Ég held að löngu sé kominn tími á að við förum að vinna eftir þessu.