146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:28]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans í dag og fyrir skýrsluna. Það er sannarlega fullt tilefni til þess að fjalla um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu og sennilega sjaldan verið eins mikilvægt að ræða og tala um hvernig ríki við viljum vera í samfélagi þjóðanna. Við erum að sigla inn í nýja tíma í alþjóðastjórnmálum, tíma þar sem er enn mikilvægara en áður að við stjórnmálamenn, en líka við sem samfélag, stöndum fast á og með frjálslyndum gildum. Við erum að upplifa tíma þar sem aukin verndarstefna og einangrunarhyggja sækir að fjölþjóðasamstarfi í heimshluta okkar. Ég fagna því þess vegna sérstaklega hversu rík áhersla er lögð á það samstarf okkar við ESB sem við erum í í skýrslunni, því að fjölþjóðasamstarf er eitthvað sem smærri ríki eins og Ísland þurfa að standa með og fyrir. Ég fagna því líka hvernig sú stefna sem birtist í skýrslunni endurspeglar þann raunveruleika sem við búum við, þ.e. að hagsmunir okkar eru í raun algjörlega samofnir hagsmunum Evrópusambandsins, þá ekki síst þegar kemur að viðskiptum, en líka varðandi menningu í stjórnmálalegu tilliti.

Þetta er sérstaklega mikilvægt, það er sérstaklega mikilvægt að við séum öll meðvituð um þetta í dag þegar við sjáum ákveðna tilhneigingu í ríkjunum í kringum okkur í aðra átt, í átt að meiri einangrun, í átt að aukinni áherslu, hjá tveimur af okkar helstu vinaþjóðum, á tvíhliða samskipti á kostnað fjölþjóðlegra samskipta. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn virðast vera að halla aftur hurðinni. Ég persónulega gef ekki mikið fyrir nýtt slagorð Breta, með leyfi forseta: „A truly global Britain“ því að mér finnst það og sú orðræða sem vinir okkar í Bretlandi hafa haldið uppi í tengslum við það slagorð satt best að segja vekja óþægileg hughrif, með leyfi forseta, „lets make Britain great again“. Bretar virðast vilja minna frjálslyndi, nema það sem hentar þröngum þjóðarhagsmunum þeirra. Mér finnst sú þróun almennt varhugaverð, en mér finnst hún líka varhugaverð vegna þess að hún þjónar hreinlega ekki þjóðarhagsmunum okkar. En er þetta kannski bara týpískt? gæti maður spurt sig. Þegar herðir að þá halla menn aftur hurðinni. Jú, þetta er óhuggulega týpískt.

Menn kenna öðrum um það sem miður fer og reyna að finna skammtímalausnir til að leysa risaáskoranir sem þyrfti að takast á við með langtímahugsun og víðsýni að leiðarljósi, áskoranir sem færi að sjálfsögðu best á að ríki myndu sem mest takast á við í sameiningu. Þetta er því ekki gott. Það leysir enginn vandamál að ríki einangri sig, en þetta virðist vera tilhneiging í dag. Við sjáum það víðar í Evrópu og svo auðvitað í Tyrklandi. Þessar nýju áherslur eru ekki í anda þess frjálslyndis sem við viljum standa fyrir hér á landi og þær ógna að mínu mati beinlínis hagsmunum okkar. Þetta er alvarleg staða, sér í lagi fyrir smáríki eins og Ísland.

Ísland á nefnilega allt undir stöðugleika í heimshluta okkar. Við eigum allt okkar undir því að samskipti, samgöngur, flutningaleiðir og viðskipti séu sem opnust og fjölþjóðlegust. Þessa sjáum við einmitt vel stað í skýrslunni þar sem ítrekað er komið inn á mikilvægi þessa fyrir landið. Þetta snýr bæði að efnahaglegu öryggi landsins og getu okkar til að tryggja varnir og öryggi landsins. Við upplifum tíma þar sem friður í okkar heimshluta er ekki endilega sjálfsagður, þótt við höfum kannski síðastliðna áratugi tekið honum sem slíkum.

Sú mikla óvissa sem umlykur nýja forystu Bandaríkjamanna, aukin spenna milli Rússa og Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna og Bandaríkjamanna, það mikla gap sem er að myndast á milli Evrópusambandsins og Tyrklands, ástandið í Úkraínu, Sýrlandi o.fl. — þetta eru atriði sem hafa bæði bein áhrif í heimshluta okkar og sem við gætum orðið fyrir svokölluðum smitáhrifum af.

Herra forseti. Við lifum í dag tíma þar sem við þurfum að huga að því að verja og berjast fyrir því frelsi sem við höfum lagt svo hart að okkur við að ná fram. Það er bara þannig, hvorki meira né minna, tímar þar sem er að renna upp fyrir okkur hve mikilvægt það er fyrir Ísland að Evrópusambandið haldi velli, ekki aðeins út frá viðskiptalegum eða efnahagslegum forsendum heldur út frá því grundvallarhlutverki sem Evrópusambandið gegnir þegar kemur að því að tryggja frið í álfunni.

Ef fram heldur sem horfir skiptist heimshluti okkar meira upp í þau ríki sem kjósa fjölþjóðasamstarf og þau sem vilja tvíhliða samstarf. Það er skoðun mín að við eigum að fylkja okkur í lið með þeim sem kjósa fjölþjóðasamstarf umfram tvíhliða samstarf, eins og t.d. Norðurlöndin, frekar en að veðja á að færa áhersluna á tvíhliða samstarfið, eins og Bretland og Bandaríkin virðast vera að gera. Það eru sannarlega ýmsir aðilar í dag sem einbeita sér að því að splundra Evrópu, að splundra Evrópusambandinu. Við eigum ekki að vera þar. Við eigum að vera í liði með Evrópusambandinu, ekki einungis vegna þess að það er það rétta að gera í stöðunni, heldur líka vegna þess að það þjónar beinlínis brýnum og beinum þjóðarhagsmunum okkar. Þess vegna er ég ekki ein þeirra fáu sem fagna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ég tel að það sé ekki gott fyrir stöðugleika í álfunni. Það er ekki gott fyrir ESB. Það er ekki gott fyrir Breta og það er ekki gott fyrir Ísland.

Þjóðarhagur smærri ríkja, sér í lagi smáríkja eins og Íslands, er háður því að allt gangi vel á alþjóðavettvangi. Við erum háð öðrum, annars vegar þegar kemur að því að tryggja efnahagslegt öryggi okkar og hins vegar þegar kemur að hefðbundnari varnar- og öryggismálum. Það er nóg að horfa t.d. til tveggja helstu útflutningsgreinanna okkar, ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Það liggur í augum uppi að íslensk ferðaþjónusta á allt undir því að friður ríki í heimshluta okkar og að ekki komi til átaka. Við erum algjörlega háð því að samgöngur til og frá landinu séu sem allra bestar.

Ef fólk verður hrætt um öryggi sitt, ef fólk verður hrætt um að öryggi þess sé ógnað á ferðum sínum til Íslands eru allar líkur á því að margir hugsi sig tvisvar um. Slíkar aðstæður myndu ógna efnahagslegu öryggi okkar.

Herra forseti. Með Brexit erum við að horfa á eftir einum af lykilviðskiptaaðilum okkar hverfa út úr meginviðskiptablokkinni okkar, Evrópska efnahagssvæðinu, af innri markaðnum. 11% af útflutningsafurðum okkar, sem eru að mestu fiskur, fara til Breta. Það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt og auðvitað forgangsmál stjórnvalda að tryggja þann markað áfram. Það er hins vegar jafnframt alveg ljóst að stærstur hluti útflutningsafurða okkar er til Evrópusambandsins. Við verðum því að passa upp á þann markað, passa upp á samskipti okkar við Evrópusambandið og standa með Evrópusambandinu, sem er stærsti markaður okkar.

Brexit er klárlega mikið áhyggjuefni út frá viðskiptahagsmunum, út frá frjálslyndissjónarmiðum, út frá fjölþjóðasjónarmiðum. Þarna eru miklar áskoranir. Það er í raun farið vel yfir þær í skýrslunni en þar ber helst að nefna að EFTA-ríkin eru ósamstiga þegar kemur að samningum við Breta, sem þýðir að við þurfum að öllum líkindum að semja tvíhliða. Við erum sennilega í allt annarri stöðu en Bretar. Tvíhliða samningar þjóna nefnilega alltaf hagsmunum stóra ríkisins. Við verðum sennilega seint í þeirri stöðu að vera stóra ríkið á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir að landið okkar sé í ferkílómetrum talið stórt.

Staðreyndin er sú að smáríki eiga auðveldara með, eiga meiri séns í fjölþjóðasamningum en í tvíhliða samningum við stór ríki. Þá virðist fjarlægt að Bretar og Norðmenn sjái hag sinn í því að Bretar gangi í EFTA, það er ekki augljóst. Auk þessu eru áskoranir þegar kemur að því að semja um flugsamgöngur. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál. Það er komið inn á þetta í skýrslu ráðherra eins og þau atriði sem ég hef tæpt á að framan.

Það þarf síðan að ræða hagsmuni borgara okkar sem búa og nema í Bretlandi og þeirra sem hafa jafnvel áhuga á að gera það í framtíðinni, en það verður áskorun að tryggja þá hagsmuni.

Svo er það makríllinn. Það er annað stórt hagsmunamál fyrir okkur. Í skýrslunni segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Ekki er víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræður sem fram til þess hafa reynst flóknar.“

Þarna er því sannarlega um aukið flækjustig að ræða fyrir Ísland í hagsmunagæslu okkar.

Á öllu þessu sýnist mér að útganga Breta skapi mun meiri óstöðugleika en stöðugleika og fá tækifæri fyrir Ísland í alþjóðasamskiptum landsins. Þegar slíkar áskoranir blasa við þurfum við sem þjóð og við sem störfum sem ríkisvald að takast á við það. Ég fagna því að skýrslan sýni og fari vel yfir að ráðuneytið er meðvitað um þær áskoranir sem ég hef farið yfir.

Herra forseti. Ég byrjaði á að segja að það hafi sennilega sjaldan verið eins mikilvægt að tala um hvernig ríki við viljum vera í samfélagi þjóðanna. En það er kannski réttara og mikilvægara að árétta að við höfum ekkert val, þ.e. við verðum að vera opin og við verðum að berjast fyrir því að heimurinn og heimshluti okkar haldist eins opinn og mögulegt er. Við eigum allt okkar undir því. Þegar við síðan horfum á þá staðreynd að við erum smáríki án hers og reiðum okkur algjörlega á Atlantshafsbandalagið, á varnarsamninginn við Bandaríkin og á norrænt varnar- og öryggissamstarf verður það kýrskýrt að stöðugleiki á alþjóðasviðinu er það besta fyrir smáríki eins og okkur. Óstöðugleiki þýðir óöryggi og smærri ríki eiga erfiðara með óöryggi, ég tala ekki um hernaðarlegt óöryggi á alþjóðasviðinu. Við verðum að aðlaga okkur að nýjum aðstæðum, nýjum raunveruleika, eins og við best getum. Það er verkefni okkar stjórnmálamanna og okkar sem samfélags. Það gerum við bæði með því að ræða varnar- og öryggismál, en líka með því að axla ábyrgð og rækja hlutverk okkar í að tryggja stöðugleika í heimshluta okkar af alvöru. Öryggi og varnir eru grundvallarforsenda fullveldis og því grundvallarskylda stjórnvalda að tryggja þær.

Ég fagna því þeirri skýru stefnu sem birtist í skýrslunni í þessum málaflokki. Við þurfum að hefja alvarlegri umræðu um málaflokkinn og skoða hvernig við getum lagt meira af mörkum. Þarna leikum við í utanríkismálanefnd lykilhlutverk. Þetta er eitthvað sem við munum fjalla ítarlega um í störfum nefndarinnar og í umræðum í þinginu.

Þá fagna ég því sérstaklega hversu skýrt skýrslan talar fyrir þeirri grundvallarhugsjón varðandi hlutverk okkar sem þjóðar á alþjóðavettvangi að við eigum að sýna gott fordæmi og tala hátt og skýrt fyrir þeim gildum sem við stöndum fyrir; jafnrétti, frjálslyndi, virðingu fyrir alþjóðalögum, virðingu fyrir réttarríkinu, fyrir mannréttindum í sinni víðustu merkingu, en líka fyrir fjölþjóðasamstarfi. Að tala fyrir því verður að vera grundvallarþáttur í hagsmunagæslu okkar á alþjóðavettvangi, því að án þessa er tilvist okkar raunverulega ógnað ef til átaka kemur í heimshluta okkar.

Við eigum að nota þá miklu og jákvæðu athygli sem við njótum nú til þess að tala hátt og skýrt fyrir jafnrétti, þeim frjálslyndu gildum sem ég nefndi og fjölþjóðasamstarfi, af ábyrgð og yfirvegun. Þannig náum við athygli og eyrum fólks og annarra þjóða. Þannig gætum við best hagsmuna Íslands.

Mig langar í lokin að beina nokkrum spurningum til ráðherra um efni skýrslunnar.

Fyrst langar að spyrja um Eystrasaltsráðið. Í skýrslunni er talað um að við Íslendingar séum mögulega að fara að halda fund með utanríkisráðherrum aðildarríkja Eystrasaltsráðsins í júní næstkomandi. Þegar ég talaði á fundi ráðsins fyrir nokkrum vikum var þetta ekki alveg í höfn. Getur ráðherra staðfest að svo sé og að ráðið sé í fyrsta sinn í nokkur ár að fara að halda fund á ráðherrastigi?

Þá langar mig að spyrja ráðherra út í samskipti við Tyrkland innan NATO. Skýrslan lýsir vel þeirri varhugaverðu vegferð sem forseti Tyrklands er að leiða land sitt inn á. Getur ráðherra sagt okkur hvort sú vegferð hafi einhver áhrif á samstarfið innan NATO?

Svo er það varðandi upplýsingamiðlun ráðuneytisins og hagsmunagæslu innan Evrópusambandsins. Ég heyrði, og fagna því, að ráðherra kom inn á EES-gagnagrunninn áðan og að algjörlega sjálfsagt væri að þingmenn fengju aðgang að þeim gagnagrunni og síðan almenningur. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann hafi einhverjar upplýsingar um hvenær við getum fengið þann aðgang. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þingmenn og fyrir almenning til þess að við getum rækt skyldu okkar og hlutverki í hagsmunagæslunni.

Síðan langar mig að spyrja um utanríkisviðskiptin. Sér hæstv. ráðherra ekki tækifæri í þeirri staðreynd að nú hefur hagvöxtur tekið við sér í öllum ríkjum Evrópusambandsins, það hefur dregið úr atvinnuleysi, laun hafa hækkað og almennt er efnahagsástandið í Evrópu að batna? Sér hann sóknarfæri í því?

Þá langar mig í lokin að biðja ráðherra að gera grein fyrir þeim tækifærum fyrir Ísland í Brexit sem hann hefur talað um og hvort hann sé ekki sammála mér í því að hann og ráðuneyti hans þurfi mögulega að gera aðeins nánari grein fyrir þeim nýju tækifærum sem hann sér fyrir sér fyrir Ísland, til að mynda í umræðunni núna. Hann hefur kannski aðeins komið inn á þetta en það er spurning hvort ráðherra sjái fyrir sér að gerð verði skýrsla um þetta mál. Það væri áhugavert að fá innlegg ráðherra um þetta.