146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:00]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Nei, ég hef ekki sagt að Evrópusambandið væri fullkomið, virðulegi forseti og hv. þingmaður. Ég hef ekki sagt það, enda sagði ég að Evrópusambandið væri í stöðugri þróun og það þarf að þróast alveg eins og Ísland hefur þróast. Er Ísland fullkomið? Hefur Ísland verið fullkomið? Lenti Ísland ekki í efnahagshruni? Lentu ekki þjóðir um allan heim í efnahagsþrengingum alveg eins og við þótt við værum ekki í Evrópusambandinu? Jú, ríki Evrópusambandsins lentu í efnahagsþrengingum alveg eins og við hér heima á Íslandi. Evrópusambandið hefur verið að vinna sig út úr þessum efnahagsþrengingum.

Eins og ég sagði áðan er hagvöxtur kominn og hann er á stöðugri uppleið. Það er að draga úr atvinnuleysi. Já, það var atvinnuleysi, það var líka atvinnuleysi hér þegar efnahagshrunið varð. Það var það.

Varðandi fríverslunarsamninga er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að þeir eru af hinu góða. Aldrei myndi ég mæla gegn því að ríki gerðu fríverslunarsamninga. Hins vegar er það þannig að Evrópusambandið hefur víst gert samninga við þriðju ríki. Maður getur þá spurt sig: Er 300 þúsund manna þjóð í betri aðstöðu til að gera samning við stór ríki eða stærri ríkjabandalög eða efnahagsveldi eins og Evrópusambandið?

Þetta er ákveðið mat sem maður þarf að hugsa. Það getur vel verið að Evrópusambandið geti verið í ágætri stöðu til þess að gera samninga við þriðju ríki eða ríkjabandalög, góða fríverslunarsamninga sem öll aðildarríki Evrópusambandsins njóta góðs af.

Ég verð síðan aftur að segja að hv. þingmaður talar um Evrópusambandið eins og það sé okkur algjörlega óviðkomandi. Við tökum upp obbann af allri Evrópulöggjöf sem verður til. Við erum í Schengen sem er djúpt dóms- og innanríkismálasamstarf. Við erum í pólitísku bandalagi með Evrópusambandinu. Við erum aukaaðilar að Evrópusambandinu, en við eigum ekki sæti við borðið. Við höfum enga rödd.