146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að sú vinna sem hæstv. ráðherra setti í gang við uppfærslu á utanríkisþjónustunni, hvar áherslurnar eigi að vera, hvort þær séu réttar í dag o.s.frv., skiptir gríðarlega miklu máli. Þessi þjónusta, utanríkisþjónustan, þarf að vera til taks. Hún þarf líka að vera undir það búin að takast á við ný verkefni og fylgja eftir gömlum verkefnum og þeim sem verið hafa lengi í gangi og Íslendingar geta verið mjög stoltir af.

Ég ætla að leyfa mér að segja að eftir því hefur verið tekið um langan tíma hversu skilvirk íslenska utanríkisþjónustan getur verið og hefur verið þrátt fyrir að vera jafn agnarsmá og hún er í raun.

Hæstv. ráðherra nefndi að við ræðum oft Evrópumálin. Það er hárrétt, enda miklir áhugamenn um Evrópumál. Það sem vekur hins vegar spurningar hjá mér og mig langar að fá álit hæstv. ráðherra á er sú staða sem er komin upp í Frakklandi. Þar eru forsetakosningar fram undan, seinni umferð þar sem annars vegar nýr miðjumaður er í framboði, og hins vegar Le Pen, sem við könnumst við úr fjölmiðlum. Það er ljóst að báðir aðilar kalla eftir því með mismunandi hætti að Evrópusambandið breytist ef það eigi að lifa. Ég held nú reyndar að annar kandídatinn vilji Evrópusambandið feigt, ef ég má orða það þannig. En miðjumaðurinn, Macron, hefur kallað eftir að sambandið breytist.

Spurningin er hvort að í ríki eins og Frakklandi hafi frambjóðandi eins og þessi ágæti maður þau hestöfl að geta kallað fram þær breytingar sem verið er að kalla eftir í Evrópusambandinu. Eða hvort það er þannig að það skipti ekki öllu máli hvort menn kalli eftir svona, hvort það verði hreinlega stoppað. Er það svo að Evrópusambandið, þ.e. apparatið í Brussel, hlusti (Forseti hringir.) á kallið þegar kallað er eftir breytingum eða er þetta eitt af þeim mörgu hrópum sem maður heyrir frá stjórnmálamönnum í Evrópu sem eru eins og hróp í eyðimörkinni eftir hjálp?